Sigurbjörg ósátt við Hannes

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir

Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttur og prófessor Robert Wade hafa sent yfirlýsingu til háskólasamfélagsins og yfirstjórnar Háskóla Íslands vegna samskipta sinna við Hannes Hólmstein Gissurarson. Þau segja hegðun Hannesar sé „óboðleg“ og „skaðleg“.

Hannes Hólmsteinn óskaði eftir að Sigurbjörg og Wade bæðust afsökunar á því að þau hefðu haft rangt eftir honum tiltekin ummæli.

Hannes sagði frá því á bloggsíðu sinni í síðustu viku að Sigurbjörg hefði beðist afsökunar á þessum mistökum.

Sigurbjörg og Wade sendu fjölmiðlum í dag yfirlýsingu þar sem þau segjast ósátt við vinnubrögð Hannesar. Málið hafi verið í höndum lögfræðinga og lögfræðingur Sigurbjargar hafi sent lögfræðingi Hannesar bréf þar sem segir: „Umbj. minn viðurkennir af sinni hálfu að hér sé um mistök að ræða að því er varðar framsetningu og biður þig um að koma á framfæri afsökunarbeiðni við Hannes Hólmstein. Jafnframt lýsir hún sig reiðubúna til þess að setja fram bréflega leiðréttingu, enda verði af hálfu Hannesar Hólmsteins fallist á þessi málalok hvað þennan þátt varðar.“

Sigurbjörg og Wade segjast ekkert hafa heyrt frá lögfræðingi Hannesar síðan og ekki sé búið að birta afsökunarbeiðnina í Cambridge Journal of Economics eins og talað hafi verið um að gera.

„Mál af þessu tagi er mjög alvarlegt og íslenska háskólasamfélaginu ber að taka það föstum tökum. Með því að senda þetta mál sem hér um ræðir til meðferðar hjá lögfræðingi hefur prófessor Hannes í samskiptum sínum við dr. Sigurbjörgu farið langt út fyrir öll akademísk velsæmismörk. Þær hótanir sem lögfræðingur prófessors Hannesar setur þar fram fyrir hönd umbjóðanda síns og prófessor Hannes ítrekar í blaðaviðtali í DV hinn 4.september s.l. er ofbeldi sem ekki á undir nokkrum kringumstæðum að líðast í samskiptum akademískra starfsmanna innan háskólasamfélagsins. Þá er með öllu óásættanlegt að dr. Sigurbjörg skuli nú þurfa að bera lögfræðilegan kostnað vegna þessa framferðis prófessors Hannesar. Þessi niðurstaða er mjög alvarleg. Hegðun prófessors Hannesar í þessu máli er ekki einungis háskólasamfélaginu óboðleg heldur er hún skaðleg fyrir samfélag félagsvísindanna á Íslandi sem hefur sérstöku hlutverki að gegna við þróun lýðræðis í landinu. Verði niðurstaðan í máli dr. Sigurbjargar og framkoma prófessors Hannesar látin óátalin og afskiptalaus af hálfu yfirstjórnar Háskóla Íslands felst í henni viðvörun til félagsvísindamanna á Íslandi sem fela mun í sér sjálfsritskoðun og takmörkun á akademísku frelsi,“ segir í yfirlýsingu Sigurbjargar og Wade sem þau sendu háskólasamfélaginu og til fjölmiðla.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert