Vaxtaútgjöld ríkisins hafa fjórfaldast

Þó hallinn á ríkissjóði hafi minnkað í tíð fyrri ríkisstjórnar …
Þó hallinn á ríkissjóði hafi minnkað í tíð fyrri ríkisstjórnar er hann samt enn verulegur. Bjarni Benediktsson tók því við erfiðu verkefni þegar hann tók við lyklum af fjármálaráðuneytinu af Katrínu Júlíusdóttur. mbl.is/Kristinn

Frá árinu 2007 hafa vaxtaútgjöld ríkissjóðs fjórfaldast, farið úr 22 milljörðum í 88 milljarða. Í ár greiðir ríkið meira í vexti en samtals til mennta- og löggæslumála. Á morgun verður fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar kynnt. Sex ár eru síðan síðast var lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem gert var ráð fyrir tekjuafgangi.

Risavaxið verkefni blasir við nýrri ríkisstjórn

Frumvarp til fjárlaga 2014 verður fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar. Í því birtist stefnumörkun stjórnvalda í efnahagsmálum, bæði fyrir næsta ár og einnig til næstu ára. Samkvæmt lögum skal með frumvarpinu fylgja langtímastefna í ríkisfjármálum til næstu þriggja ára.

Það bíða því margir spenntir eftir að sjá hvað ríkisstjórnin ætlar að gera, ekki bara stjórnendur ríkisstofnana heldur einnig aðilar á vinnumarkaði sem eru að hefja undirbúning að gerð nýrra kjarasamninga.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði þegar verið var að mynda ríkisstjórnina í sumar að aðgerðir í ríkisfjármálum yrðu meginverkefni nýrrar ríkisstjórnar. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar segir að markvisst þurfi að vinna að því að lækka skuldir ríkissjóðs.

Skuldir fór úr 311 milljarði í 1.507 milljarða á fimm árum

Það verður ekki annað sagt en að ríkisstjórnin standi frammi fyrir risavöxnu verkefni í ríkisfjármálum. Ríkissjóður hefur verið rekinn með tapi á hverju ári frá árinu 2008 og fjárlög gera ráð fyrir halla á þessu ári. Samanlagt rekstrartap ríkissjóðs á árunum 2008-2012 er 562 milljarðar.

Skuldir ríkissjóðs eru samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs 1.507 milljarðar en voru 311 milljarðar árið 2007. Ríkissjóður greiddi 75,6 milljarða í vexti á síðasta ári, en greiddi 22,2 milljarða í vexti árið 2007. Reiknað er með að vaxtakostnaður ríkissjóðs verði 88 milljarðar í ár.

Árið 2007 nam fjármagnskostnaður ríkissjóðs 5,6% af útgjöldum. Í fyrra nam þessi kostnaður 13,5% af útgjöldum og því er spáð að þetta hlutfall verði enn hærra í ár. Ríkið greiðir núna meira í vexti en það greiðir samtals í menntakerfið allt og til löggæslumála.

Verður gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum?

Fyrri ríkisstjórn setti fram fimm ára áætlun í ríkisfjármálum í febrúar 2009, en samkvæmt henni átti að ná fram hallalausum fjárlögum á þessu ári. Gert var ráð fyrir að ríkissjóður yrði rekinn með 44,3 milljarða afgangi í ár. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að fresta markmiði um hallalaus fjárlög um eitt ár. Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir að hallinn í ár verði 3,6 milljarðar, en Bjarni Benediktsson sagði í sumar að það stefndi í að hallinn yrði um 30 milljarðar. Ástæðan væri um 14 milljarða veikleikar á tekju- og gjaldahlið og 13 milljarða gjaldfærsla vegna framlags til Íbúðalánasjóðs.

Samkvæmt langtímaáætlun í ríkisfjármálum, sem birtist í síðasta fjárlagafrumvarpi, er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með 17,8 milljarða afgangi á næsta ári. Núverandi ríkisstjórn er ekki bundin að þessu markmiði, en fróðlegt verður að sjá hvort hún leggur fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir afgangi.

Eitt af því sem mun ráða miklu um hvort ríkisstjórninni tekst að skila hallalausum fjárlögum er hagvöxtur í landinu. Hann hefur verið mun minni en reiknað var með í fjárlögum þessa árs. Fyrir ári spáði Hagstofan því að hagvöxtur á næsta ári yrði 3,7%, en nú spáir hún því að hagvöxturinn verði 2,7%.

Lítill hagvöxtur kallar á strangara aðhald með útgjöldum

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að þeir vilji ná hallarekstri ríkissjóðs niður með því að auka umsvif í efnahagslífinu í staðinn fyrir að skattleggja sig út úr vandanum sem þeir segja að fyrri ríkisstjórn hafi reynt að gera. Hætt er við að þessi auknu umsvif, sem þeir tala um, skili sér hægt inn á næsta ári vegna lítils hagvaxtar.

Það er því líklegt að ef stjórnvöld vilja skila hallalausum fjárlögum verði þau að beita enn strangara aðhaldi í útgjöldum. Það er því hætt við að það verði fleiri forstöðumenn ríkisstofnana fyrir vonbrigðum en forstjóri Landspítalans.

Ríkisstjórnin kom í vor á fót hagræðingarhóp fjögurra þingmanna. Fróðlegt verður að sjá hvort í fjárlagafrumvarpi næsta árs verður að finna kerfisbreytingar í ríkisrekstri. Það liggur í loftinu að skorið verði mikið niður hjá stofnunum sem stækkuðu hratt í kjölfar hrunsins. Þar má nefna Sérstakan saksóknara, Umboðsmann skuldara og Fjármálaeftirlitið. Þá er ljóst að ýmsar framkvæmdir sem fyrri ríkisstjórn lofaði fyrir kosningar eins og fjárfestingaáætlun verða skornar niður við trog.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert