Skuldir ríkissjóðs hafa hækkað um 1.200 milljarða frá hruni. Þar af nemur hækkun vegna hallareksturs ríkissjóðs 400 milljónir. Aðrar skuldir eru tilkomnar vegna gjaldeyrisforðans, endurfjármögnunar ríkissjóðs og endurfjármögnunar Seðlabankans. Endurfjármögnun bankanna kostaði 250 milljarða.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerði þessar miklu skuldir að umtalsefni á blaðamannafundi í dag. Hann sagði það forgangsverkefni að hætta að reka ríkissjóð með tapi og lækka skuldir ríkissjóðs. Skuldir ríkissjóðs hefðu verið um 300 milljarðar þegar hrunið skall á. Það hafi skipt landið miklu máli að skuldirnar voru ekki hærri þegar áfallið skall á.
Bjarni sagði að munurinn á skuldum ríkissjóðs sem væru tilkomnar vegna hallareksturs og öðrum skuldum væri að engar eignir lægju að baki þeim 400 milljarða skuldum sem hefðu orðið til frá árinu 2009 meðan ríkissjóður var rekinn með halla.
Á bak við lántökur vegna gjaldeyrisforðans væri gjaldeyrir sem hægt væri að selja. Á bak við lántökur vegna fjármögnunar bankanna lægju einnig eignir í fjármálafyrirtækjunum. Þá benti hann á að eigið fé Seðlabankans væri um 100 milljarðar.