Fann óvænt eðalkróka á Íslandi

Eðalkrókar fundust nálægt Bifröst.
Eðalkrókar fundust nálægt Bifröst. Ljósmynd Ásta Kristín Davíðsdóttir

Nemandi í Náttúru- og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskólann fann fyrst allra svo vitað sé til eðalkróka á Íslandi. Um er að ræða blað- og runnfléttur sem algeng er í Skandínavíu en hefur ekki fyrr fundist hér þrátt fyrir að vera auðþekkt og áberandi.

Það var Ásta Kristín Davíðsdóttir, nemandi í fléttugreiningaráfanga í skólanum, sem sá fléttuna nærri Bifröst. Hún vakti athygli hennar, en henni tókst ekki að greina fléttuna sem einhverja af þeim íslensku tegundum af krókum sem til umfjöllunar voru í námskeiðinu. Hún tók því sýni af fléttunni sem nú hefur verið staðfest af helsta sérfræðingi heimsins í krókum, Prófessor Teuvo Ahti í Helsinki, að er eðalkrókar, Cladonia stellaris. 

Mikil leit hefur verið gerð að eðalkrókum

Vegna nýútkomins heftis af fléttuflóru Norðurlanda sem fjallar um króka og bikarfléttur hefur Ahti nýverið farið í gegnum öll sýni af krókum sem varðveitt eru í fléttusafni Náttúrufræðistofnunar án þess að verða var við eðalkróka,. Því má segja að mikil leit hafi verið gerð eðalkrókum áður en þeir fundust og var greinilegt að Ahti vænti þess að eðalkrókar yxu á Íslandi því í tölvuskeyti sínu sagði hann: „Really strange that it is so rare in Iceland and Svalbard, although it is common in Greenland!“ Þess má geta að Ahti kom til Íslands 1997 þegar norrænir fléttufræðingar héldu hér vettvangsfund en þá var fléttum safnað víða á Austurlandi án þess að eðalkrókar fyndust.

Eðalkrókarnir eru, ásamt hreindýrakrókum, helsta fæða hreindýra í norðanverðri Skandinavíu auk þess sem þeir eru vinsælir sem skraut einkum í aðventukransa en eðalkrókar hafa einkennandi kúlulaga topp og þykja því laglegri en hreindýrakrókarnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert