Mótmælt við þingsetningu

Talsverður hópur mótmælenda hefur safnast saman á Austurvelli vegna setningar Alþingis sem hefst klukkan 13:30 með guðþjónustu í Dómkirkjunni. Heimildir mbl.is herma að um sé að ræða á bilinu 50-100 manns en lögreglan girti af svæðið í kringum þinghúsið í morgun eins og verið hefur undanfarin ár og er með gæslu á svæðinu.

Þegar guðþjónustunni lýkur um klukkan 14:00 ganga ráðherrar og þingmenn auk Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til Alþingishússins þar sem þingsetningarathöfnin heldur áfram með ávarpi hans og Einars K. Guðfinnssonar, forseta þingsins.

Þingfundi verður síðan frestað til klukkan 16:00 þegar fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður dreift og þingmenn draga um sæti í þingsalnum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flytur síðan stefnuræðu sína annað kvöld klukkan 19:40. Þá mælir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fyrir fjárlagafrumvarpinu 3. október klukkan 10:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert