Nokkrir fjárlagaliðir fá enga fjárveitingu í ár og aðrar þurfa að taka á sig verulega skerðingu. Áformum um byggingu Stofnunar íslenskra fræða við Suðurgötu í Reykjavík verður skotið á frest og sama á við byggingu nýs Landspítala.
Embætti Talsmanns neytenda fær engar fjárveitingar á næsta ári, en gert er ráð fyrir að embættið sameinist Neytendastofu á næsta ári. Embættið kostar 14,8 milljónir í ár.
Fóðursjóður verður lagður niður, en hann veltir 1.400 milljónum á þessu ári. Verðmiðlun á landbúnaðarvörum verður sömuleiðis hætt, en 405 milljónir fara í þennan lið í ár. Ekki er heldur gert ráð fyrir neinu framlagi í jöfnun flutningskostnaðar, en síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir því að tæplega 200 milljónir færu í þetta verkefni í ár.
Hætt verður við nokkur verkefni sem tengjast fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Framlög til sóknaráætlunar landshluta lækkar úr 400 milljónum niður í 15 milljónir. Liðurinn græn skref og vistvæn innkaup fær ekkert í frumvarpinu, en hann fékk 150 milljónir í ár. Framlag upp á 280 milljónir í Græna hagkerfið verður fellt niður.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að lagaákvæði um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja sökum hráefniskorts verði fellt niður. Það lækkar útgjöld ríkissjóðs um 190 milljónir.
Nokkrar stofnanir sem stækkuðu mikið eftir hrun þurfa núna að draga saman seglin. Sérstakur saksóknari fær 559 milljónir á þessu ári, en hann fékk 849 milljónir í ár og 1.253 milljónir í fyrra.
Framlög til Fjármálaeftirlitsins lækka úr 1.818 milljónum í 1.582 milljón. Þá kemur fram að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður í árslok 2014, líkt og upphaflega var áformað.
Framlög til Umboðsmanns skuldara lækka úr 944 milljónum í 715 milljónir, en þau voru 1.148 milljónir í fyrra. Starfsmenn umboðsmanns voru 71 í byrjun árs, en reiknað er með að þeir verði orðnir 55 um næstu áramót og fækki niður í 50 í árslok 2014.
Framlög til Vatnajökulsþjóðgarðs lækka úr 732 milljónum í 352 milljónir, m.a. vegna þess að hætt verður við byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri.
Framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands lækka úr 1.147 milljónum í ár í 735 milljónir. Það er þó meira en miðstöðin fékk í fyrra þegar framlagið var 558 milljónir.
Framlög til rannsóknasjóða á vegum Rannís lækka úr 3.432 milljónum í 2.692 milljónir.
Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins stækkaði mikið í kjölfar umsóknar Íslands um aðild að ESB. Nú er gert ráð fyrir að framlög til miðstöðvarinnar lækki úr 544 milljónum í 265 milljónir.
Þá er ekki gert ráð fyrir nema 100 milljónum í byggingu nýs Landspítala á næsta ári.