„Það er nú trúlega orðið ansi langt síðan. Ég gæti trúað að það þyrfti að fara aftur á hina öldina til þess að finna dæmi um það,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en aldrei þessu vant verður hann ekki einn ræðumanna flokksins í kvöld þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína.
„Ég geri frekar ráð fyrir því, án þess að hafa kannað það eða muna það nákvæmlega, að ég hafi verið í öllum umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra síðan 1998-9 og auðvitað mörgum þar á undan. En ég býst við að ég hafi verið nokkurn veginn allan tímann frá 1998-9 til og með í fyrrahaust,“ segir hann.
Steingrímur stofnaði sem kunnugt er Vinstrihreyfinguna - grænt framboð ásamt fleirum árið 1999 og var hann formaður flokksins allt þar til á landsfundi VG í febrúar síðastliðnum þegar Katrín Jakobsdóttir tók við formennskunni en hún er einmitt ræðumaður flokksins í kvöld ásamt þeim Árna Þór Sigurðssyni og Lilju Rafney Magnúsdóttur.
Fyrrverandi formenn geti verið til friðs
„En þetta er bara góð tilbreyting. Svona gengur lífið og nú er vel mannað í minn stað þannig að ég er bara hæstánægður,“ segir Steingrímur ennfremur. „En ég er nú duglegur að hjálpa til. Ég er talsvert að ferðast með Katrínu að gamni mínu bara, vera töskuberi hjá henni og fara á fundi og svona. Það er bara gaman að því,“ segir hann.
Blaðamaður rifjar það upp að Steingrímur hafi í fyrsta sinn sest í stól forseta Alþingis eftir kosningarnar í vor. „Það er bara gaman að því að takast á við nýja hluti. Ég ætla mér að afsanna þá kenningu að menn séu bara til tómra vandræða þegar þeir hætta sem formenn eða ráðherrar og eru komnir í eitthvað annað,“ segir hann og hlær.
„Ég ætla bara að sýna það og sanna að það sé hægt að gera þetta vel og njóta þess, hafa gaman að og hjálpa til með sinni reynslu. Ég held að það sé að ganga ágætlega til þessa.“