Háskóli Íslands enn meðal 300 bestu

Háskóli Íslands aðalbygging
Háskóli Íslands aðalbygging mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands heldur sig í sama flokki og í fyrra, í úttekt blaðsins Times Higher Education yfir bestu skóla heims. Listinn var birtur í dag og er Tækniháskólinn í Kaliforníu (Caltech) sá besti.

Þar á eftir koma Hardvard, Oxford, Stanford, Massachusetts Institute of Technology, Princeton, Cambridge, Berkeley, háskólinn í Chicago og Imperial College London.

Gríðarlega hörð barátta um sæti á listanum

Háskóli Íslands er í sæti 251-275 af alls 17 þúsund háskólum sem starfandi eru í heiminum. Þetta er þriðja árið í röð sem Háskóli Íslands er á listanum yfir bestu skólana. 

Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ segir þetta gleðitíðindi fyrir starfsfólk, stúdenta, samstarfaðila skólans og íslenskt atvinnulíf og samfélag. „Baráttan um að halda stöðu á listanum er gríðarlega hörð. Það er til marks um metnað og einbeittan vilja starfsfólks að þessi árangur hefur náðst á erfiðum tímum.“

Kristín segir þó mikilvægt að hafa í huga að þennan árangur megi að hluta rekja til vinnu sem fram fór á árunum fyrir efnahagshrunið. „Flestir skólar sem við keppum við eru í löndum þar sem fjárframlög hafa verið aukin markvisst til að styrkja samkeppnishæfni viðkomandi ríkja.“

Karolinske besti skóli Norðurlanda

Bandaríkin eiga að venju marga skóla á listanum eða 77. Bretland fylgir þar á eftir með 31 skóla af þeim 200 bestu í heimi. Holland kemur tólf skólum á listann, Þýskaland tíu og Frakkland átta.

Sænski háskólinn Karonlinska Institute þykir vera besti háskólinn á Norðurlöndunum og er hann í 36 sæti. Hann hækkar sig um sex sæti frá því í fyrra, en þá var hann í 42 sæti.
Aðeins tveir norrænir háskólar eru meðal þeirra hundrað bestu í heiminum, Karonlinska Institute og háskólinn í Finnlandi. Níu háskólar á Norðurlöndunum komast á lista Times Higher Education í ár.

Háskólar á Spáni, í Tyrklandi og í Noregi komast nú á listann eftir að hafa ekki verið þar í fyrra.  Enginn rússneskur háskóli kemst á listann að þessu sinni. Sterkasti háskólinn þar í landi er í 226 til 250 sæti, en var áður í 201 til 225 sæti.

Horft til ýmissa þátta

Listi Times Higher Education tilgreinir 400 bestu háskólana af þeim 17.000 háskólum sem eru starfandi í heiminum. Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á listann á aldarafmæli skólans 2011 og færðist skólinn upp um heilan flokk á listanum í fyrra. Hann er nú í sama gæðaflokki og þá, en nákvæm staða háskólans á lista yfir þá bestu verður birt á næstu dögum. Háskólinn var í 271. sæti í fyrra.

Listinn byggist á ítarlegu mati á gæðum háskóla og er horft til fjölmargra þátta. Þar ber helst að nefna rannsóknastarf, kennslu, námsumhverfi og áhrif á alþjóðlegum vettvangi. Rannsóknir eru metnar á grundvelli fjölda vísindagreina í virtum alþjóðlegum vísindatímaritum og gæði þeirra eru mæld með fjölda tilvitnana. Sá þáttur sem ræður mestu um þessa sterku stöðu háskólans eru áhrif rannsókna hans á alþjóðlegum vettvangi.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert