Íslendingar hlynntir þróunarsamvinnu

Alls voru yfir 77% aðspurðra frekar eða mjög sammála því …
Alls voru yfir 77% aðspurðra frekar eða mjög sammála því að þróunarsamvinna hjálpi til í baráttunni gegn fátækt í þróunarlöndum. Ljósmynd/UNICEF

Samkvæmt nýrri könnun MMR, sem framkvæmd var fyrir utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands eru Íslendingar afar hlynntir þróunarsamvinnu. Alls voru yfir 77% aðspurðra frekar eða mjög sammála því að þróunarsamvinna hjálpi til í baráttunni gegn fátækt í þróunarlöndum.

Könnunin var unnin í samræmi við þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016 þar sem kveðið er á um gerð hennar sem lið í kynningar- og upplýsingastarfi um málaflokkinn. 

80,7% aðspurðra sögðust hlynnt eða mjög hlynnt þátttöku íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu. Alls vildu flestir, eða um 55,4% aðspurðra að framlög Íslands til þróunarsamvinnu yrðu óbreytt. Um það bil helmingur allra aðspurðra sögðust hafa á síðustu 12 mánuðum veitt fatagjafir, fé til frjálsra félagasamtaka eða framlög til safnana. 

Þekkja illa til efnisþátta þróunaraðstoðar

Þótt mikill meirihluti sé hlynntur þróunarsamvinnu þá skortir þó nokkuð á þekkingu Íslendinga á málaflokknum. 63,7% aðspurðra sögðust þekkja illa eða mjög illa til þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda. Meira en helmingur aðspurðra gat ekki nefnt samstarfsland Íslands á sviði þróunaraðstoðar og 44,1% gat ekki nefnt málaflokk sem lögð er áhersla á í þróunarsamvinnu Íslands. Eins gátu 86,4% aðspurðra ekki nefnt neitt þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Niðurstöður könnunarinnar voru formlega kynntar á málþingi um þróunarsamvinnu sem haldið var fyrr í dag. 

Skýrslu MMR má nálgast í heild sinni hér á vef utanríkisráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert