„Mín fyrstu viðbrögð eru auðvitað gríðarleg vonbrigði, ég hélt að við værum komin í gang með bygginguna með fjárframlögum á síðustu tveimur fjárlögum, samtals um 300 milljónir. Nú hefur þeim verið kippt til baka með einu pennastriki. Það er líka ljóst að það fjármagn sem sveitarfélög á Suðurlandi hafa lagt til byggingarinnar á erfiðum tímum í rekstri eiga eflaust erfitt með að horfa á peningana á bankabók ef engin fjárfesting fer af stað. Og verði það fjármagn líka tekið er ég mjög svartsýn á að húsið verði byggt á næstunni", segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands í viðtali við DFS um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær.
Allt fjármagn til nýs verknámshúss við skólann er strikað út í fjárlagafrumvarpinu samkvæmt frétt DFS.
„Á tyllidögum tala ráðamenn um að efla þurfi veg verknáms og að hvetja þurfi ungt fólk til að mennta sig í iðn- og starfsnámi. Það eru innan tóm orð því miður samkvæmt þessari niðurstöðu. FSu tekur á sig stóran hlut af þeim niðurskurði sem mennta - menningarmálaráðuneytinu var gert að skera niður til framhaldsskólanna. Á sama tíma erum við í miklum vanda með aðbúnað í Hamri og er tækjabúnaður sem við höfum ekki getað endurnýjað er úr sér genginn. Við höfum beðið lengi eftir byggingunni þannig að við erum mjög vonsvikin,“ bætir Olga Lísa við.