Komu ekki nálægt deiliskipulaginu

Loftmynd af gömlu höfninni og nýju byggðinni við Vesturbugt.
Loftmynd af gömlu höfninni og nýju byggðinni við Vesturbugt. Af vef Reykjavíkurborgar

Arkitektastofan Graeme Massie Architects birti í dag tilkynningu á facebooksvæði Íbúasamtaka Vesturbæjar þar sem tekið er fram að stofan hafi ekki komið að vinnslu á deiliskipulagi Gamla hafnarsvæðisins eins og það liggur fyrir nú. 

Á vefsvæði Reykjavíkurborgar segir að breytt deiliskipulag Vesturbugtar byggi á rammaskipulagi Graeme Massie Architects fyrir Gömlu höfnina. 

Arkitektastofan átti vinningstillögu í opinni hugmyndasamkeppni um rammaskipulag á gömlu höfninni í Reykjavík árið 2009. Í tilkynningu stofunnar kemur hins vegar fram að stóra þætti í vinningstillögunni sé ekki að finna í deiliskipulaginu. Segja þeir meginstefið í tillögu sinni hafi verið mjó stræti sem liggja niður að höfninni. Hæð húsanna átti að vera fjölbreytt og allt upp í fimm hæðir, en þeim stillt upp þannig að lítill skuggi falli á hafnarbakkann sjálfan. Í tilkynningunni segir að í núverandi deiliskipulagi myndi húsin við hafnarbakkann þéttan vegg sem varpi skugga á hafnarbakkann og geri hann þar með að lélegu samkomusvæði.  

Ennfremur segir í tilkynningunni að arkitektastofan hafi ekki verið höfð með í ráðum við gerð deiliskipulagsins. Eftir að hafa spurst fyrir um framvindu vinnunnar við deiliskipulagið fékk stofan sendar teikningar til umsagnar. Þær umsagnir hafi hins vegar ekki verið teknar til greina, og er því deiliskipulagið nú afar ólíkt sigurtillögu þeirra og því sem rammaskipulagið gerði ráð fyrir. 

Hér má sjá rammaskipulagið sem byggði á tillögu Graeme Massie Architects

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka