Segja niðurskurðinn fordæmalausan

Atriði úr kvikmyndinni Hross í oss
Atriði úr kvikmyndinni Hross í oss

Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda telur niðurskurð á fjárlögum til kvikmyndagerðar fordæmalausan í menningarhluta fjárlaganna og nær einsdæmi í öllum fjárlögum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu frá SÍK, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda.

„Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 sem lagt var fram á Alþingi í gær kemur fram að Kvikmyndasjóður verður skorinn niður um 42% á næsta ári frá því sem áætlað var. Þannig fer kvikmyndasjóður úr 1.070 m sem voru á áætlun í 624,7 m króna. Í annað skiptið á fjórum árum verður kvikmyndagreinin fyrir risa höggi í niðurskurðartillögum stjórnvalda og enn og aftur er vegið að uppbyggingu á atvinnugrein sem kominn var á góðan skrið.

Þessi niðurskurður er fordæmalaus í menningarhluta fjárlaganna og nær einsdæmi í öllum fjárlögunum. Framleiðendur sem hafa á ný byggt upp greinina eftir höggið 2010 kippa nú að sér höndum og gera má ráð fyrir að reynslan frá niðurskurði í fjárlögum fyrir árið 2010 muni endurtaka sig. Þannig má áætla að tekjur ríkissjóðs lækki um 615 milljónir, yfir 200 ársverk tapist í greininni og að þjóðarbúið verði af yfir hálfum milljarði í erlendum gjaldeyri, strax á næsta ári.

SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda lýsir yfir miklum vonbrigðum með þessa ráðagerð stjórnvalda og harmar að þessi ákvörðun sé tekin, þrátt fyrir yfirlýsingu forsætisráðherra um annað í Kastljósi þann 11. september sl.  Það segir sig sjálft að uppbygging á atvinnugrein sem þarf sífellt að búa við slík skilyrði hafa mikil áhrif á hana og ljóst að enn á ný munum við sjá að baki margs af okkar færasta fólki sem mun leita í vellaunuð störf erlendis,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert