Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að stjórnvöld stefni að því á kjörtímabilinu, að draga úr bili milli skattþrepa í virðisaukaskattkerfinu. Það feli í sér að lægra þrepið verði hækkað og efra þrepið verði lækkað.
Í dag eru tvö þrep í virðisaukaskattskerfinu. Almenna þrepið er 25,5%, en 7% skattur er lagður á matvæli, hótel- og gistiþjónustu, afnotagjöld sjónvarps, blöð, bækur, rafmagn og hita.
„Á kjörtímabilinu verður farið í frekari endurskoðun á skattkerfinu,“ sagði Bjarni þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið í gær. „Við leggjum upp með frekari endurskoðun á virðisaukaskattkerfinu sem felur í sér að dregið verður úr bili milli skattþrepanna. Það þýðir að við hyggjumst lækka efra þrepið og hækka neðra þrepið. Í neðra þrepinu eru ýmsar nauðsynjavörur. Þá er mikilvægt að við um leið tökum til endurskoðunar vörugjöld. Við þurfum að finna leiðir til að draga úr áhrifum hækkunar á neðra þrepið á innkaupakörfu heimilanna.“
Bjarni sagðist telja að um þessa breytingu ætti að geta tekist nokkuð góð samstaða. Tillagan hefði komið fram á Samráðsvettvangi um aukna hagsæld. Bjarni sagðist finna fyrir þverpólitískum stuðningi í þinginu við þessa tillögu. Hann sagði nauðsynlegt að undirbúa þessa breytingu vel og hafa samráð um hana við aðila vinnumarkaðarins. Hann sagðist áforma að kalla saman starfshóp um þetta verkefni á næstu dögum eða vikum.
Bjarni sagði einnig fyrirhugað að fara í úttekt á skattumhverfi einstaklinga. „Þar er ég með í huga hið flókna samspil útsvars, sem ríkið ber ábyrgð á að skila til sveitarfélaganna, og tekjuskattinum sem er með há skattleysismörk og þrjú skattþrep. Síðan bætist bótakerfi ofan á þetta. Vaxtabótakerfið og barnabótakerfið hafa hvort um sig ýmis fjárhæðartakmörk og skerðingarreglur sem taka breytingum frá ári til árs. Þetta leiðir til einkennilegra jaðaráhrifa í skatta- og bótakerfi sem er ástæða til að gera sérstaka úttekt á og í framhaldinu að taka ákvarðanir um breytingar, til einföldunar og til að auka gegnsæi,“ sagði Bjarni.