Frumvarp stuttbuxnastráka í matadorleik

Úr Kastljóssþætti kvöldsins
Úr Kastljóssþætti kvöldsins Skjáskot/Rúv

Vandamál Landspítalans er fyrst og fremst af pólitískum toga, vegna skorts á pólitískum vilja til að láta það fé í heilbrigðisþjónustuna sem þarf. Þetta sagði Kári Stefánsson í Kastljósi í kvöld. Vigdís Hauksdóttir sagði að „strax“ væri teygjanlegt hugtak þegar kæmi að málum eins og Landspítalanum.

Málefni Landspítalans í ljósi fjárlagafrumvarpsins voru til umræðu í Kastljósinu í kvöld. Auk Vigdísar og Kára tóku þar til máls Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Anna Gunnarsdóttir formaður læknaráðs og Eygló Ingadóttir formaður stjórnar hjúkrunarráðs.

„Strax“ teygjanlegt hugtak

Aðspurður hvort ekki væri hægt að taka annars staðar frá þessar 200 milljónir króna sem áætlað er að náist með legugjöldum á Landspítalanum sagði Kristján Þór að það væri örugglega hægt.

Hann sagði að meginatriðið væri að ná því markmiði sem sett er með fjárlögum, að rétta ríkissjóð af. Forgangsröðunina innan þess ramma megi ræða frekar en hann beri ábyrgð á að leggja fram þessa tillögu til að mæta þeirri kröfu sem sett sé á hans ráðuneyti. 

Vigdís Hauksdóttir formaður Fjárlaganefndar hefur ítrekað sagt það eitt af megin forgangsmálum Framsóknarflokksins að færa aukalega 12-13 milljarða í rekstur Landspítalans. Í þingræðu fyrir nokkrum mánuðum sagði hún að milljarðana þyrfti strax. Í viðtali við Kastljós í kvöld sagði hún hinsvegar að „strax“ væri teygjanlegt hugtak í þessu samhengi.

Læknar uggandi yfir legugjaldi

Anna Gunnarsdóttir sagði að læknar á Landspítalanum séu mjög uggandi yfir boðuðu legugjaldi á spítalanum. Þetta væri siðferðisleg spurning enda væru það aðeins veikustu sjúklingarnir sem liggi inni á spítalanum. Hún sagðist jafnframt telja að þessar 200 milljónir væru sýndir peningar en ekki gefnir og hætt væri við að innheimta þeirra muni reynast erfið.

Eygló Ingadóttir sagði það dýrt að vera fátækur. Hún benti á atgervisflótta íslensks heilbrigðisstarfsfólks, í þeim fælist gríðarleg fjárfesting og því væri það líkt og að henda peningum út um gluggann að missa þetta fólk. Hún sagði það verða dýrt að snúa við þróuninni á lyflækningasviði spítalans og sagðist telja ódýrara þegar fram í sækir að reyna að viðhalda góðum rekstri á spítalanum, og bæta frekar aðeins í en að draga úr.

Ekki mikill vilji sjáanlegur hjá ríkisstjórn

Kári Stefánsson sagði ýmsa hafa búist við öðru af nýrri ríkisstjórn, í ljósi þess hvernig sama fólk talaði í stjórnarandstöðu. Hann sagði hinsvegar að fjárlagafrumvarpið sýndi ekki mikinn vilja í þá átt að verja heilbrigðiskerfið.

Kári sagðist hafa það á tilfinningunni að fjárlagafrumvarpið hefði verið „sett saman af litlum strákum í stuttbuxum að spila matadorleik.“ Hann sagðist jafnframt túlka orð heilbrigðisráðherra sem svo að hann óskaði liðsinnis í því að berjast gegn kollegum sínum í ríkisstjórn þannig að forgangsröðuninni verði breytt.

„Þetta plagg verður í meðförum þingsins í tvo mánuði og okkar hlutverk er að sannfæra þetta þing um að það verði að breyta þessu [...] Ef það tekst ekki eigum við að henda þessu fólki út við næstu kosningar.“

Sjá Kastljós í kvöld

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert