„Ljóst að flugvöllurinn þarf að fara“

Jón Gnarr, borgarstjóri segir að ekki sé stætt á því að hunsa vilja meirihluta borgarbúa sem vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Hins vegar sé ljóst að flugvöllurinn þurfi að fara. Það sé bara spurning hvert, með hvaða hætti og hvenær. 

Upplýst um framboð þann 30. október

Þetta kemur fram í viðtali við Jón Gnarr í Kjarnanum í dag. Þar segist hann ætla að greina frá því hvort hann muni bjóða sig fram í næstu borgarstjórnarkosningum í lok mánaðarins. Það muni hann gera í útvarpsþættinum Tvíhöfða á Rás 2, 30. október.

Í viðtalinu tjáir borgarstjóri sig um Hörpuna og byggingu hennar. „Forsendur þessa verkefnis brustu algjörlega við efnahagshrunið og í því miðju stendur húsið hálfklárað. Sú ákvörðun var tekin fyrir mína tíð að ríki og borg sameinuðust um að klára það. Ég hafði blendnar tilfinningar gagnvart því þá. Svo þegar ég kynnti mér málið sá ég að það var ekkert annað hægt að gera í stöðunni. Það skipti máli að það næðist sátt um húsið. að þetta yrði ekki einhver snobbhöll heldur hús alþýðunnar sem fólk gæti komið inn í og verið stolt af.

Mér finnst það hafa tekist og að fólk sé almennt mjög ánægt með Hörpuna. Hún mun standa eftir okkar daga og er þegar orðin eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur. Það að láta húsið standa sem einhvers konar minnismerki um hrunið er ömurleg og nöturleg tilhugsun sem allir yrðu bara daprir af. Auk þess var það metið svo, á sínum tíma, að það yrði jafnvel dýrara að rífa húsið en að klára það.“

Ekki það hitamál sem látið er

Jón Gnarr segir að flugvallarmálið sem hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu vera tilbúið í pólitískum tilgangi og ekki það stóra hitamál sem látið er.

„ Framsetningin á kostunum í þessari umræðu fannst mér líka svolítið sérkennileg. Þetta var eiginlega sett fram sem tveir kostir: viltu flugvöll með öllu í Vatnsmýrinni eða viltu tortíma Reykjavík og öllu landinu með? En þetta er ekkert svona einfalt.“

Að sögn Jóns er það  niðurstaða flestra sem skoða borgarskipulagsmál í Reykjavík af einhverju ráði að þessi flugvöllur þarf að fara.

„Hann þarf að flytjast. Við þurfum að byggja í Vatnsmýrinni vegna þess að það mun fjölga töluvert í Reykjavík og okkur vantar byggingarland. Vatnsmýrin er mjög ákjósanlegur staður til þess að byggja. Ef við byggjum ekki þar þarf að halda áfram að byggja langleiðina upp í Bláfjöll. Það mun þýða aukinn umferðarþunga, fleiri umferðarslys, meiri svifryksmengun, aukinn kostnað og svo framvegis. Við myndum í raun fara inn í ákveðin vítahring með því að horfast ekki í augu við þetta vandamál.

Það eru mjög valdamiklir aðilar sem tengjast þessari umræðu. Það er til dæmis mjög hagkvæmt fyrir íslenska ríkið, sem hefur aldrei borgað eina krónu í leigu fyrir þetta land sem var á sínum tíma tekið hernámi með mjög vafasömum hætti, að flugvöllurinn verði þarna á fram. Ég hvet fólk til að kynna sér málið frá öllum hliðum áður en það tekur afstöðu,“ segir borgarstjóri í viðtali við Kjarnann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert