Staða lyflækningasviðs Landspítala er grafalvarleg og hefur leitt til mikillar umræðu í fjölmiðlum sem annars staðar undanfarið, skrifar Helga Ágústa Sigurjónsdóttir sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla-og efnaskiptasjúkdómum starfandi við lyflækningadeild Landspítala, í Læknablaðið.
Hún segir að vandinn hafi því miður verið fyrirsjáanlegur og við honum hefur verið varað margoft um árabil.
„Loksins, þar sem þeir sem áttu að geta spyrnt við hafa að minnsta kosti ekki haft hátt um vandann. Löngu fyrir bankahrun, í „góðærinu“, var stöðugt þrengt að sjúkrahúsinu fjárhagslega. Þetta sýndi forstjóri spítalans svart á hvítu með tölum sem hann lagði fram á fundi læknaráðs 20. september síðastliðinn. Eftir liggur sjúkrahúsið í sárum sem við óttumst að ekki verði hægt að bæta eða muni taka fjölda ára að gróa ef ekki verður spyrnt strax við fótum,“ skrifar Helga Ágústa.
Hún bendir á í greininni að á Landspítala hafi verið sagt upp mörg hundruð öðrum starfsmönnum sem unnu störf sem styðja starf lækna og gera þeim kleift að nýta tíma sinn betur til lækninga.
„Læknir sem ekki hefur ritara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða aðra lykilheilbrigðisstarfsmenn sér við hlið læknar færri sjúklinga. Punktur! Til að reyna að hindra þetta hafa allir hlaupið hraðar – en nú stöndum við á öndinni og þegar deildarlæknum á sviðinu hefur fækkað um meira en helming náum við ekki andanum lengur. Tækjakostur sjúkrahússins er úr sér genginn á mörgum sviðum. Sérfræðilæknar hafa ekki lengur þann tækjakost eða þau úrræði sem voru talin sjálfsögð í framhaldsnámi þeirra.
Bráðveikum er sinnt en það sem má bíða, bíður. Einfalt. Er eitthvað skrítið að deildarlæknarnir á sviðinu séu flestir farnir? Þau hafa val bæði innanlands og utan. Þau sækja ekki í lyflækningar þar sem þau hafa í litlum mæli átt kost á að kynnast því hve áhugaverðar og skemmtilegar sérfræðigreinar sviðsins eru í eðlilegu starfsumhverfi. Hér er framtíð lyflækninga á Íslandi í húfi!,“ segir ennfremur í grein Helgu Ágústu sem hægt er að lesa í heild hér