Afnema stimpilgjald á lánaskjölum

mbl.is/Sigurður Bogi

Í frumvarpi fjármálaráðherra að nýjum heildarlögum um álagningu stimpilgjalds er hvergi minnst á stimpilgjald af lánaskjölum. Verði frumvarpið að lögum er því ljóst að stimpilgjöld af lánaskjölum verða afnumin með öllu. Lántakendur munu því ekki þurfa að greiða stimpilgjald af lánaskjölum.

Stimpilgjald skilaði ríkissjóði 3,35 milljörðum króna í tekjur í fyrra. Þar af námu tekjur af stimpilgjöldum af lánaskjölum 2,07 milljörðum. Stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslur námu alls 1,15 milljörðum.

Til að mæta því tekjutapi sem ríkissjóður mun verða fyrir við afnám gjaldsins verður stimpilgjald af eignayfirfærslum hækkað. 

Í greinargerð með frumvarpinu segir að með frumvarpinu er lagt til að greitt verði 0,8% stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu á fasteign ef kaupandi er einstaklingur en 1,6% stimpilgjald ef kaupandi er lögaðili.

Viðskiptakostnaður lækkar umtalsvert fyrir lántakendur

Sem dæmi má taka fjölskyldu sem fjárfestir í eigin húsnæði við núgildandi lög. Hún fjármagnar kaupin með eigin fé og 65% lántöku af kaupverði. Sé kaupverð eignarinnar 35 milljónir og lánsfjárhæðin 23 milljónir greiðir viðkomandi fjölskylda nú 140.000 krónur í stimpilgjald af kaupsamningi og 345.000 krónur í stimpilgjald af skuldabréfinu, eða samtals 485.000 krónur miðað við gildandi reglur.

Verði frumvarpið að lögum mun umrædd fjölskylda greiða 280.000 krónur í stimpilgjald af eignayfirfærslusamningnum, en ekkert af lánaskjölunum.

Viðskiptakostnaður fjölskyldunnar lækkar því um 205.000 krónur eða um 0,6% af kaupverði fasteignarinnar miðað við þessar forsendur. Viðskiptakostnaðurinn lækkar svo meira eftir því sem hærri lán eru tekin, en hækkar sé fasteignin staðgreidd.

Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert