„Anda með nefinu; klukkan er ekki orðin ellefu“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn

„Það eru núllin hér í þessu frumvarpi sem eru mestu vonbrigðin. Auðvitað er þetta frumvarp kjaftshögg á landsbyggðina og dreifbýlið sérstaklega, og maður hefði kannski átt von á öðru miðað við það hvernig sumir menn töluðu hér á síðasta kjörtímabili,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, er hann gagnrýndi stjórnvöld fyrir að setja ekki fé í sóknaráætlanir fyrir landshlutana.

„Ég vil biðja háttvirtan þingmann um að anda með nefinu; klukkan er ekki orðin ellefu,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, settur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og bætti við að hann vissi ekki hvert Steingrímur væri að fara með þessari ræðu.

Í mars sl. voru samningar um sóknaráætlanir í átta landshlutum undirritaðir. Með þessu tryggði þáverandi ríkisstjórnin 400 milljónir á þessu ári til verkefnanna sem samþykkt voru, en þau voru alls 73 í átta landshlutum. Mótframlag frá landshlutunum sjálfum nam um 220 milljónum.

„Það sem skiptir máli hér er að fjárlagafrumvarpið er tómt meira og minna þegar kemur að þessum sprotum og þessari uppbyggingu og þessari sókn sem menn ímynduðu sér að menn væru að hefja upp úr erfiðleikunum. Með því að styðja við nýsköpun og þróun, með því að hlúa að brothættum byggðum, með því að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar og svo framvegis,“ sagði Steingrímur og bætti við að sóknaráætlanir landshlutanna væri eitt mikilvægasta hryggjarstykkið í þessu.

Hann sagði ennfremur, að það væri gott og vel ef núverandi ríkisstjórn hefði hugmyndir um annað og betra fyrirkomulag í þessum efnum. „En þetta mun alltaf að lokum snúast um það, verður sett eitthvert fjármagn inn í fjárlögin til þess hægt sé að gera eitthvað af þessu tagi - hvernig sem því er fyrirkomið. Og núllin, að eru núllin hér í þessu frumvarpi sem eru mestu vonbrigðin. Auðvitað er þetta frumvarp kjaftshögg á landsbyggðina og dreifbýlið sérstaklega, og maður hefði kannski átt von á öðru miðað við það hvernig sumir menn töluðu hér á síðasta kjörtímabili,“ sagði Steingrímur.

„Hvað er það sem beið þessarar ríkisstjórnar? Gat upp á 25-30 milljarða. Hvernig heldur háttvirtur þingmaður að eigi að stoppa upp í það? Það er með ólíkindum að hlusta á þessa ræðu sem hér var flutt. Þegar þingmenn koma hér upp, nýbúnir að vera í ríkisstjórn - ráðherrar jafnvel - algjörlega ábyrgðalausir,“ sagði Gunnar Bragi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert