Það var Kópavogsbúinn Gunnhildur Sveinbjarnardóttir, viðskiptavinur í Krónunni við Vallakór, sem kom auga á snákinn sem fannst þar í morgun. Dóttir hennar kallaði til hennar og sagði að það væri snákur á gólfinu.
Að sögn Gunnhildar lagði hún ekki mikla trú á orð hennar í fyrstu, þar sem snákar eru eðli málsins samkvæmt afar sjaldgæfir í matvöruverslunum hér á landi. Hún leit þó við eftir smá stund og sá þá að snákurinn var við fæturna á barninu.
„Hann var á eftir henni, var vel vakandi og skimandi,“ segir Gunnhildur. Hún segir að sér og barninu hafi verið mjög brugðið við þetta. „Ég kippi barninu frá og kalla út um alla búð að það sé lifandi snákur í versluninni,“ segir Gunnhildur. „Loksins kom starfsmaður og hann horfði á mig eins og ég sé eitthvað skrýtin.“
Gunnhildur telur að snákurinn hafi verið um hálfur metri á lengd.
Að sögn Gunnhildar fékk starfsmaður 365 miðla heldur misvísandi upplýsingar þegar hann hafði samband við verslunarstjóra vegna málsins, en honum var sagt að aðeins hefði verið um margfætlu að ræða sem hleypt var út úr versluninni. Sá misskilningur hefur verið leiðréttur.
Frétt mbl.is: Lifandi snákur í Krónunni