Myndband af snáknum: „Var bara kríli“

„Þetta er skemmtilegasta búðarferð sem ég hef farið í síðan ég veit ekki hvenær,“ segir Helgi Guðbrandsson sem var staddur í Krónunni í Kópavogi í dag þegar snákur liðaðist þar um gólfið. Helgi stóðst ekki mátið að draga upp símann og taka myndskeið. Hann segir starfsfólk Krónunna hafa gengið rösklega til verks.

Helgi segist hafa verið að tína vörur í körfuna í mestu rólegheitum þegar hann heyrði óp og köll. „Ég sé konu benda eitthvað og þá var bara slangan að skríða þarna meðfram hillunni. Í því kemur starfsmaður aðvífandi og biður fólk um að fara ekki of nærri honum því við vissum náttúrulega ekkert hvað þetta var,“ segir Helgi.

Starfsmaður á kassa fjarlægði snákinn

Misjafnar sögur fóru af því í dag hversu stór snákurinn var en Helgi segist ekki hafa upplifað að mikil ógn stafaði af honum. „Þetta var bara pínulítið kríli. En það verður auðvitað svolítið uppnám hjá fólki þegar það sér slöngu.“

Eftir stutta stund kom einn afgreiðslumanna í Krónunni íklæddur hönskum, tók snákinn upp og fór með hann afsíðis. „Starfsfólkið stóð sig frábærlega, mér finnst þau eiga hrós skilið fyrir að ganga rösklega til verks og afgreiða málið strax.“

Leitað var til meindýraeyðis sem aflífaði snákinn með hraði. Í yfirlýsingu frá Krónunni nú síðdegis segir að atvikið sé harmað. Búið sé að skipta öllum ávöxtum og grænmeti í versluninni út og sett af stað ítarleg athugun á því hvernig þetta gat gerst. 

„Mamma það er snákur hérna“

Rannsaka hvaðan snákurinn kom

Lifandi snákur í Krónunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert