Björgunarsveitir af Suður- og Suðvesturlandi munu í dag leita áfram að bandaríska ferðamanninum sem saknað hefur verið að Fjallabaki. Búist er við að um 100 manns muni taka þátt í leitinni.
Stefnt er að því að leita svæðið umhverfis Landmannalaugar því engar vísbendingar hafa fundist um veru hans eða ferðir annars staðar þrátt fyrir að búið sé að leita þeirra á stórum hluta gönguleiðarinnar milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Líkt og fram hefur komið á mbl.is er Nathan Foley-Mendelssohn, sem ætlaði að ganga Laugaveginn úr Landmannalaugum að Skógum undir Eyjafjöllum, talinn af.
Ekkert hefur spurst til hans síðan 10. september sl., en þá lagði hann einn upp í Laugavegargönguna frá Landmannalaugum.
Frá Íslandi ætlaði Foley-Mendelssohn til Barcelona. Þegar hann skilaði sér ekki þangað höfðu aðstandendur samband við lögreglu hér á landi. Það var fyrir rúmri viku og þá strax hófst undirbúningur leitar sem stóð alla síðustu helgi.