Góður andi í Fjarðarkaupum

„Það er þakklætið til viðskiptavinanna sem stendur upp úr, það er fyrst og fremst það sem maður hugsar um í dag,“ segir Gísli Sigurbergsson, einn eiganda verslunarinnar Fjarðarkaupa, en 40 ára afmæli verslunarinnar er fagnað nú um helgina. Starfsmenn og viðskiptavinir fagna tímamótunum saman um helgina, en gestir og gangandi geta nýtt sér afmælistilboð og fengið kaffi og með því.

Afmælisdagurinn sjálfur var síðastliðinn fimmtudag og lögðu þá margir leið sína í verslunina. Gísli segir að það hafi verið afar ánægjulegt að standa í búðinni, spjalla við viðskiptavinina og finna þakklæti frá þeim. „Við eigum marga góða og trygga viðskiptavini, það er ómetanlegt,“ segir hann.

Það eru ekki aðeins Hafnfirðingar sem sækja búðina heim, heldur fara margir milli sveitarfélaga eða landshluta og versla í Fjarðarkaup. En af hverju hefur verslunin svona mikið aðdráttarafl? „Ég held að það sé það sem við stöndum fyrir; góð þjónusta, gott vöruúrval og gott fólk á gólfinu,“ segir Gísli. „Það er einhver andi hér sem fólkið finnur fyrir.“

Verslunin hefur verið á sömu slóðum í fjörtíu ár. Í gegnum tíðina hefur aðeins verið ein Fjarðarkaupsverslun, alltaf í Hafnarfirðinum. Að sögn Gísla hefur aldrei staðið til að færa út kvíarnar og koma á fót fleiri verslunum.

Verslunin Fjarðarkaup var upphaflega opnuð við Trönuhraun í Hafnarfirði þann 7. júlí árið 1973 og var með fyrstu lágvöruverslununum sem opnaðar voru hér á landi. Stofnendur og fyrstu eigendur voru annars vegar hjónin Ingibjörg Gísladóttir og Sigurbergur Sveinsson, ásamt dóttur þeirra Hjördísi, og hins vegar Valgerður Jónsdóttir og Bjarni Blomsterberg ásamt Birnu, dóttur þeirra. Ingibjörg og Sigurbergur keyptu fyrirtækið að fullu árið 1993.

Flestir kannast við grænmetis- og ávaxtadeildina og kjötborðið. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar í gegnum tíðina og má nú til að mynda finna lífrænar vörur í Fræinu og versla garn í peusy í hannyrðadeildinni Rokku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert