„Auðvitað er eitt og annað sem þarf að laga til í fjárlagafrumvarpinu, það verður gert í meðförum þingsins á næstu mánuðum og á þeim tíma munu fjárlögin auðvitað taka breytingum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á fundi kjördæmisráðs Framsóknarflokksins í NA kjördæmi í dag. Hann áréttaði nauðsyn þess að skila hallalausum fjárlögum. Vikudagur greinir frá þessu.
„Mikið hefur verið rætt um heilbrigðismálin, sem er eðlilegt. Þar er niðurskurðinum lokið, þar er ekki verið að skera niður, eins og gert hefur verið ár eftir ár. Það getur vel verið að í fjárlagavinnunni finnist leiðir til að forgangsraða enn frekar í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Legugjöldum er ætlað að skila Landspítalanum um 200 milljónum og ef menn finna 200 milljónir einhvers staðar annars staðar, þá ætti að vera hægt að skipta þeim fjármunum út. Ég á allt eins von á því að fjárlaganefndinni takist að finna út úr þessu,“ sagði Sigmundur Davíð á kjördæmisþinginu, sem haldið er í Háskólanum á Akureyri.