„Það er ekki eðlilegt að við séum að karpa t.d. með þeim hætti sem við höfum lent í um gjaldtöku sjúklinga á síðustu dögum, þegar við fáum síðan fréttir af því að einn einstaklingur, eins og Morgunblaðið flutti fréttir af í morgun, krabbameinssjúklingur í göngudeildarþjónustu lendir í því að vera búinn að borga yfir 600 þúsund krónur. Það er eitthvað að í þessu kerfi öllu.“
Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í umræðum á Alþingi í gær um fjárlög næsta árs. Þar vísaði hann í umfjöllun Morgunblaðsins í gær um kostnaðarhlutdeild krabbameinssjúklinga í meðferð en kona í brjóstakrabbameinsmeðferð var búin að reiða fram úr eigin vasa 660.000 kr. á einu ári.
„Svo erum við með aðra hluta heilbrigðiskerfisins þar sem fólk borgar ekki krónu, þetta eru þeir þættir sem ýta undir það að þetta sé tekið til heildar- og gagngerrar endurskoðunar,“ segir Kristján Þór um málið. Hann hefur mikinn áhuga á því að setja lög um greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu til að dreifa og jafna þeim byrðum á sem flestar herðar. Hann telur að um það ríki þverpólitísk samstaða á Alþingi.