Ummæli forsætisráðherra óskiljanleg

Katrín jakobsdóttir og Árni Páll Árnason stinga saman nefjum á …
Katrín jakobsdóttir og Árni Páll Árnason stinga saman nefjum á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um fjárlagafrumvarpið verði sífellt óskiljanlegri.

„Hann gafst upp á að tala fyrir fjárlagafrumvarpinu áður en fjármálaráðherrann náði að mæla fyrir því. Aldrei áður hefur forsætisráðherra gefist svo hratt upp á að réttlæta ráðstafanir í fjárlagafrumvarpi, segir Árni Páll á Facebook síðu sinni í dag.

Stjórnarandstaðan að ákveða forgangsröðun fjárlaga?

„Nú segir hann að stjórnarandstaðan eigi að ákveða forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu,“ bætir Árni Páll við og vísar í ummæli Sigmundar Davíðs á fundi kjördæmaráðs Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi í gær, þar sem hann sagði að eitt og annað þyrfti að laga í frumvarpinu og að það mundi auðvitað breytast í meðförum þingsins.

„Það getur vel verið að í fjárlagavinnunni finnist leiðir til að forgangsraða enn frekar í þágu heilbrigðisþjónustunnar,“ sagði forsætisráðherra m.a. í gær og talaði sérstaklega um möguleikann á að „finna annars staðar“ þær 200 milljónir sem ætlað væri að legugjöld skiluðu Landspítalanum. 

„Ég á allt eins von á því að fjárlaganefndinni takist að finna út úr þessu,“ sagði Sigmundur Davíð á kjördæmisþinginu.

Árni Páll segir að stjórnarandstaðan sé svo sem alveg til í það að ákveða forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu. „[En] veltum þá fyrir okkur hvort meirihlutinn sé þá tilbúinn  að afla tekna frá vinum sínum, t.d. með hækkun veiðigjalds?

Og ef svo er, til hvers er þá ríkisstjórnin?“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka