Verði nýtt fjárlagafrumvarp að lögum, mun skattur á einnota bleiur lækka úr 25,5% í 7%. Barnafjölskyldur munu líklega finna nokkuð fyrir muninum, en fjölskylda með eitt barn gæti þá borgað um 13 þúsund krónum minna fyrir bleiur ár hvert.
Að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra er breytingin liður í því að bæta stöðu barnafjölskyldna og hún mun auka ráðstöfunartekjur þeirra um nokkur þúsund krónur á mánuði. Kostnaðurinn við lækkunina er áætlaður um 200 milljónir króna.
Blaðamanni mbl.is lék forvitni á að vita hversu mikinn mun barnafjölskyldur munu finna, verði þessi breyting að veruleika. Að sjálfsögðu verður að taka með í reikninginn að hér á landi er hægt að kaupa bleiur af hinum ýmsu stærðum og gerðum.
Misjafnt er hversu margar bleiur eru í hverjum pakka, hversu mikið pakkinn kostar, hversu margar bleiur barnið notar á degi hverjum og hversu lengi barnið notar bleiu. Fyrst um sinn notar barnið ef til vill nokkuð margar bleiur en síðan fækkar þeim þegar líður á.
Eftir athugun kom í ljós að hægt er að kaupa pakka af vinsælli bleiutegund í matvöruverslun hér á landi á 1.995 krónur. Í pakkanum eru 41 til 52 bleiur, allt eftir stærð þeirra. Kosti pakki af bleium 1.995 krónur í dag, ætti hann að kosta 1.701 krónu verði fjárlagafrumvarpið að lögum.
Ef gengið er út frá því að barn noti að meðaltali sex bleiur á dag, gera það 2.190 bleiur yfir árið. Ef 50 bleiur eru í pakkanum, þarf að kaupa 44 bleiupakka fyrir barnið yfir árið. Í dag myndi slíkur skammtur kosta 87.780 krónur, en væri skatturinn 7% kosta pakkarnir 74.844 krónur. Hér munar 12.936 krónum.
Eins og áður segir er misjafnt hversu margar bleiur barn notar á hverjum degi. Á sumum heimilum eru jafnvel fleiri en eitt barn sem notar bleiu hverju sinni og því munar eflaust marga um þessa breytingu.