Rætt verður meðal annars um framtíð Evrópska efnahagssvæðisins (EES) á fundi í Evrópuþinginu næstkomandi miðvikudagskvöld þar sem þingmönnum gefst tækifæri til þess að leggja fram fyrirspurnir til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að búist sé við því að þingmenn á Evrópuþinginu muni af því tilefni hvetja framkvæmdastjórnina til þess að heimila evrópsku smáríkjunum Andorra, Mónakó og San Marínó að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.
Evrópska efnahagssvæðið var formlega sett á laggirnar í byrjun árs 1994 en aðilar að því eru öll ríki Evrópusambandsins auk EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein.