13 cm snjódýpt í Reykjavík

Snjódýpt í Reykjavík var 13 cm í morgun. Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur segir að snjórinn sjatni hratt og verði að mestu horfinn á morgun. Á fimmtudag eru horfur á rigningu og ef horft er lengra fram í tímann er milt veður í kortunum á SV-landi.

Helga segir að það sé ekkert vetrarveður framundan á SV-landi þrátt fyrir þessa miklu snjókomu í nótt. Snjókoman hafi verið mest í Reykjavík og t.d. hafi ekkert snjóað í Keflavík.

Ástæðan fyrir snjókomunni er lægðardrag sem er á leið austur yfir landið. Helga segir að við Suðurströndina rigni meðan lægðin þokast austur yfir landið, en inn til landsins sé slydda eða snjókoma. Eftir hádegið verði rigning og slydda á SA-landi.

Eftir hádegi snýst vindur í vestanátt og búast má við éljum á Vesturlandi. Síðan snýst í norðanátt á Norðurlandi og þar má búast við éljagangi síðdegis og í kvöld.

Snjó rutt af götum Reykjavíkur í morgun.
Snjó rutt af götum Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Golli
Alhvítt var í Reykjavík í morgun.
Alhvítt var í Reykjavík í morgun. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka