Stella Stefánsdóttir á 90 ára afmæli í dag og á von á 190. afkomanda sínum í heiminn í nóvember. Stella eignaðist 14 börn, á 52 barnabörn, 106 langömmubörn og 17 langalangömmubörn.
Hún á því 189 afkomendur núna eða fleiri en nokkur annar lifandi Íslendingur. „Það er auðvitað alveg dýrlegt og þetta er allt saman besta fólk. Það er held ég það sem vantar í þessa blessuðu veröld, það eru einhver gæði og samheldni í fólki,“ segir Stella í samtali í Morgunblaðinu í dag um afkomendafjöldann.
Stella hefur alla tíð búið á Akureyri, segist vera heilsuhraust og sér enn um sig sjálf. „Það er alltaf einhver sem lítur inn svo til daglega. Sjö barna minna eru í bænum og ég fer til skiptis til þeirra í mat. Ég reyni svo að bjarga mér að öðru leyti heima.“