Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir lögmenn sem innanríkisráðuneytið hafi leitað til flesta þeirrar skoðunar að mjög erfitt sé að koma við afturvirkni í svokölluðu lyklafrumvarpi sem nú er í undirbúningi.
Samkvæmt þingsályktunartillögu sem samþykkt var á sumarþingi var innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra falið að undirbúa lyklafrumvarp sem lagt verði fram á haustþingi. Lyklafrumvarpinu er ætlað að veita fólki heimild til að skila lyklum að húsnæði og losna þannig við allar skuldir sem hvíla á húsnæðinu.
Hanna Birna sagði að drögum að frumvarpi yrði skilað til ráðherranefndar um skuldamál heimilanna í næstu eða þarnæstu viku.
Hanna Birna sagði að lögmenn sem ráðuneytið hefði leitað til við undirbúning málsins hefðu flestir sagt að mjög erfitt væri að koma við afturvirkni í lyklafrumvarpi. Hún sagði að niðurstaða væri ekki komin í málinu, en vinnu ráðuneytanna myndi ljúka á næstu dögum.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að lyklafrumvarp hefði fjórum sinnum verið lagt fram á þingi á síðasta kjörtímabili. Björgvin G. Sigurðsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefði lagt á sig mikla vinnu til að reyna að ljúka vinnu við frumvarpið í þingnefnd. Svar við spurningu um hvort slíkt frumvarp mætti gilda afturvirkt var hins vegar alltaf óljóst. Sigurður Líndal emeritus hefði að lokum svarað því skýrt á fundi nefndarinnar að afturvirk lagasetning stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Þar með hefði tilraun til að ljúka afgreiðslu frumvarpsins runnið út í sandinn.
Valgerður sagði að hún hefði orðið vör við að áform núverandi ríkisstjórnar um að leggja fram lyklafrumvarp hefði vakið vonir hjá fólki sem væri í fjárhagsvanda. Eyða þyrfti óvissu hjá þessu fólki. Hanna Birna sagði rétt að það þurfi að eyða óvissu um þessi mál, en óvissan væri ekki búin að standa í fjóra mánuði, heldur í fimm ár.