Erfitt verk fyrir höndum á lyflækningasviði

mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég finn að það er vaxandi órói innan spítalans um að það sé ekkert að fara að gerast, og fyrst og fremst eru gríðarleg vonbrigði varðandi fjárlögin,“ segir Friðbjörn R. Sigurðsson, sem ráðinn hefur verið yfirmaður almennra lyflækninga á Landspítala.

Hann varar við því að deilur til eða frá um boðuð legugjöld séu til þess eins að draga athyglina frá raunverulegum vanda spítalans.

Friðbjörns bíður m.a. það verk að stýra sérstökum starfshóp lækna sem á að vinna tillögur að úrbótum á lyflækningasviði og skila til ráðherra. Enn er í gildi sérstök neyðaráætlun, sem virkjuð var á lyflækningasviði 1. september vegna læknaskorts.

Húsnæðið ein helsta rót vandans

„Það er mikið verk fyrir höndum,“ segir Friðbjörn. Læknahópurinn á að vinna út frá þeirri aðgerðaráætlun sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Björn Zoëga fyrrverandi forstjóri LSH kynntu á blaðamannfundi um miðjan september. Þau eiga sinn fyrsta fund á morgun og skila tillögunum 30. nóvember.

Aðspurður hvort læknahópurinn hafi næg vopn í höndunum til að efla lyflækningasviðið, miðað við þær forsendur sem heilbrigðisráðherra gefur þeim, segir Friðbjörn að það eigi eftir að koma í ljós.

„Þetta verður erfitt sérstaklega vegna þess hvernig aðstaðan er, því eitt stærsta vandamál lyflækninganna er að vera svona í tveimur húsum eins og hefur komið fram núna síðustu daga eftir að sneiðmyndatækið bilaði í Fossvogi.“

Til umræðu að endurraða starfseminni í húsin

Friðbjörn segir að húsnæðisvandinn sé undirrót stórs hluta vandans á lyflækningasviði. „Þetta er ótækt eins og þetta er, mannaflinn nýtist illa og það er erfitt að hafa unglækna á vöktum á tveimur stöðum. Kannski verður niðurstaðan sú að halda bara úti vakt öðrumegin. Það má líka vera að það þurfi að endurraða starfseminni í húsin, en það yrði náttúrulega gífurlega kostnaðarsamt.“

Starfsfólk Landspítala varð að sögn Friðbjörns mjög vonsvikið með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Væntingar hafi verið uppi um að í þetta sinn yrði bætt í, eftir áralangan niðurskurð.

„Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá enn ekki fram úr því hvað sé hægt að gera, annað en að minnka þjónustuna verulega.“

200 milljónir lítið í heildarsamhenginu

Mikið hefur verið deilt um þær hugmyndir sem settar eru fram í fjárlagafrumvarpinu um að rukka sjúklinga fyrir hvern dag sem þeir liggja inni. Áætlað er að slík legugjöld gætu numið alls 200 milljónum. Friðbjörn segir hætt við að þetta afvegaleiði umræðuna.

„Öll athyglin virðist núna beinast frá stóru málunum og að þessu. Þetta eru innan við 200 milljónir króna, sem skipta í raun ekki öllu máli til að frá í þessu samhengi því við erum að tala um svo miklu, milu hærri fjárhæðir. Það má ekki fara þannig að ef fallið verði frá legugjaldinu, þá haldi fólk að allt sé komið í himnalag á Landspítalanum.“

Friðbjörn Sigurðsson hefur verið ráðinn yfirlæknir almennra lyflækninga.
Friðbjörn Sigurðsson hefur verið ráðinn yfirlæknir almennra lyflækninga. mbl.is
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynntu …
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynntu í september aðgerðir til að bæta stöðu lyflækningasviðs. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert