Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ekki verði gengið lengra í að skera niður í grunnþjónustunni hér á landi. Hann tekur hins vegar fram að til að hægt verði að standa vörð um hana til framtíðar og bætt þar í, þurfi stjórnvöld að ná tökum á skuldavandanum og vaxtakostnaði ríkissjóðs.
„Það verður ekki gert nema með hallalausum fjárlögum,“ sagði Sigmundur í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Katrín Jakobsdóttir, þingmaður VG, spurði forsætisráðherra út í stöðu efnahagsmála og ríkisfjármálin.
„Mig langar að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra, út frá orðum hans, hvort hann sé mér ekki sammála um það sjónarmið að ekki verði gengið mikið lengra í því að skera niður innviðina. Nefni ég þá sérstaklega heilbrigðisþjónustuna, skólakerfið og hið félagslega kerfi, að það hljóti að verða leiðarljós Alþingis ef fara þarf í frekari niðurskurð milli umræðna, þ.e. ef menn vilja halda sig við þetta markmið; og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort til greina komi að skila fjárlögum í halla,“ spurði Katrín.
Sigmundur svaraði, að honum fyndist það „ekki koma til greina, við þær aðstæður sem við erum í, að skila fjárlögum enn eina ferðina með halla. Það segi ég einfaldlega vegna þess að vaxtakostnaður ríkisins er þegar orðinn slíkur að það er farið að bitna á grunnstoðunum. Þeirri þróun þarf að snúa við. Ég er sammála því, sem hv. þingmaður spurði um, að ekki verði lengra gengið í að skera niður í grunnþjónustunni en til að við getum staðið vörð um hana til framtíðar og bætt þar í þarf að ná tökum á skuldavandanum og vaxtakostnaði ríkissjóðs.“
Katrín benti ennfremur á að í fjárlagafrumvarpinu væri gert ráð fyrir að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar væri nánast tekin út og vísað til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að taka niður sérstakt veiðigjald.
„Ég hef áhyggjur af því, miðað við þetta og miðað við óvissu um þau stóriðjuáform sem hæstvirtur forsætisráðherra nefnir, sem ég tel raunar ekki skynsamlega fjárfestingu efnahagslega, að þessar horfur kunni að versna. Ég hefði frekar viljað sjá fjárfestingu aukast í fjölbreyttari atvinnugreinum,“ sagði Katrín.
Sigmundur Davíð sagði að gallarnir á fjárfestingarstefnu fyrri ríkisstjórnar hefðu verið tveir. „Í fyrsta lagi hafði hún ekki verið fjármögnuð, ekki hafði verið sýnt fram á fjármagn til framkvæmdanna. Uppi voru hugmyndir um að nýta arð úr bönkum eða jafnvel arð af sölu banka í slíkt en þá gleymdist að það fjármagn sem ríkið setti inn í bankana var tekið að láni og þurfti að endurgreiða. Hitt var að verkefnin voru ekki öll líkleg til að skila verulegum arði.“