Hefði ríkið haldið eignarhlut sínum í Arion banka og Íslandsbanka í stað þess að láta þá í hendur erlendra kröfuhafa hefði sá hagnaður sem þar hefur myndast farið langt með að vega á móti beinu tapi ríkisins af efnahagshruninu.
Þetta er mat Ásgeirs Jónssonar, lektors í hagfræði við Háskóla Íslands. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag telur hann þessa ráðstöfun vera eina af fernum meginmistökum sem gerð hafi verið eftir hrunið.
„Hagnaður nýju bankanna þriggja á síðustu árum er fyrst og fremst tilkominn vegna uppfærslu eigna í kjölfar efnahagsbata og lægri vaxta,“ segir Ásgeir en samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans frá 1. janúar 2009 til 30. júní 2013 er um 250 milljarðar. Ásgeir bendir á að hagnaður sænska ríkisins af yfirtöku á „slæmum“ eignum í bankakreppunni þar á 9. áratug síðustu aldar hafi að miklu leyti bætt sænska ríkinu upp tapið vegna bankakreppunnar.
Þessi hagnaður á Íslandi hafi hins vegar fallið erlendum kröfuhöfum í skaut sem hljóti á einhverjum tímapunkti að vilja flytja hann úr landi. Þannig hafi ábatinn af efnahagsbatanum fyrir bankana orðið að nýrri snjóhengju.