Enn á eftir að taka upp nokkra tugi hektara af kartöflum í Þykkvabæ, en þar hafa rigningar gert það að verkum að vélar hafa ekki komist um garðana. Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ, segir óvíst að hægt verið að ná uppskerunni upp.
„Það er búið að rigna svo mikið í sumar að maður hefur ekki komist um garðana,“ segir Sigurbjartur. Hann segir að það hafi rignt heldur minna undanfarna daga, en þegar garðarnir séu svona rosalega blautir þurfi að líða langur tími þar til þeir eru orðnir færir fyrir upptökuvélarnar. Þær sitji bara fastar í drullunni.
Sigurbjartur segir erfitt að giska á hversu stór hluti uppskerunnar sé enn í görðunum. Það sé búið að ná meirihlutanum upp, en að eigi eftir að taka upp nokkra tugi hektara. Hann segir að það sé „óþægilega mikið eftir“ hjá sér.
„Maður hefur verið að vona að það þornaði meira svo það væri hægt að ná meiru upp, en á endanum tekur frostið uppskerinu. Þegar jörðin er svona blaut þá hleypur frostið niður í jörðina,“ segir Sigurbjartur. Talsvert frost var í nótt í Þykkvabæ.
Almennt er kartöfluuppskeran léleg í ár. Ástæðan er tíðarfarið í sumar sem einkenndist af rigningum og sólarleysi.