Ný bílastæði við Skógafoss í bígerð

Ljósmynd sem sýnir bílastæðið við Skógafoss í gær.
Ljósmynd sem sýnir bílastæðið við Skógafoss í gær.

Skógafoss er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og þar er ágangur mikill. Í sumar var unnið að viðhaldi göngustíga en aðra sögu er að segja af malarbílastæðunum, sem hafa látið á sjá sökum veðurs og mikils ferðamannastraums. Vonir standa til að ný bílastæði líti dagsins ljós á næsta ári.

Mbl.is barst ábending um að nú mætti sjá stóra polla á bílastæðinu (sjá meðfylgjandi ljósmynd), sem er jafnframt upphaf gönguleiðarinnar yfir Fimmvörðuháls.

Að sögn Vegagerðarinnar var svæðið heflað í síðustu viku, en það var sömuleiðis gert nokkrum sinnum í sumar. Í síðustu viku var hallinn lagaður til að draga úr því að pollar gætu myndast á stæðinu. Vegagerðin tekur hins vegar fram að það taki ávallt nokkurn tíma fyrir svæði að jafna sig eftir svona framkvæmdir, m.a. vegna þess að jarðvegur er laus. 

Framkvæmdir hefjist vonandi á næsta ári

Anton Kári Halldórsson, byggingar- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra, segir í samtali við mbl.is, að breytingar á bílastæðinu við Skógafoss séu í vændum.

„Síðasta vetur var samþykkt nýtt deiliskipulag fyrir Skóga og svæðið í kring. Samkvæmt því deiliskipulagi er gert ráð fyrir því að bílastæðin færist út af núverandi svæði,“ segir Anton Kári og bætir við að gert sé ráð fyrir því að engin bílastæði verði fyrir innan friðlýsta svæðið.

„Þess vegna hefur - t.d. eins og í sumar -  Rangárþing eystra haldið að sér höndum með að ráðast í miklar framkvæmdir á bílastæðinu, út af því að það verður jafnað þarna undir og þökulagt,“ segir hann ennfremur.

Markmiðið sé að malbika bílastæði fyrir sunnan félagsheimilið Fossbúð, sem yrði þá einkaframkvæmd á vegum sveitarfélagsins. Endanleg tímasetning liggur ekki fyrir en að sögn Antons Kára binda menn vonir við að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdirnar á næsta ári.

Skipulagsmálin flókin

Anton Kári tekur fram að skipulagsmálin séu nokkuð flókin á Skógum í dag. Þar sé t.d. að finna þéttbýli sem sé ekki skilgreint sem slíkt. „Þannig að allir vegir þarna eru á ábyrgð Vegagerðarinnar,“ bætir hann við.

Nú standi hins vegar endurskoðun aðalskipulags Rangárþings eystra yfir og samkvæmt henni verði gert ráð fyrir því að Skógar verði skilgreindir sem þéttbýlissvæði. Það þýði m.a. að vegir á svæðinu, þ.e. þeir sem eru ekki innan einkalóða, muni heyra undir sveitarfélagið.

Anton Kári tekur ennfremur fram, að Rangárþing eystra sé ekki eini eigandinn að Skógum. „Heldur eru það héraðsnefndir Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu; þannig að það er Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftahreppur sem eiga þetta land í sameiningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert