Þrautseigja einkennir bæjarbúa

Freydís Guðmundsdóttir
Freydís Guðmundsdóttir mbl.is/Golli

Þau Indriði Þóroddsson og Freydís Magnúsdóttir þekkja samfélagið á Bakkafirði betur en flestir. Hafa þau bæði búið þar í áratugi og segja að þrautseigja einkenni bæjarbúa sem hafi mátt þola aflabrest og fólksfækkun.

Indriði starfar sem hafnarvörður við nýbyggða höfnina og hefur verið verkstjóri hjá bænum undanfarin 18 ár. „Gamla höfnin var ekki nógu örugg og nýja höfnin var byggð þar sem mun auðveldara var að koma bátum að samkvæmt öldumælingum Siglingastofnunar. Það þurfti alltaf að hífa alla báta á land með krana í gömlu höfninni,“ segir Indriði. Stærsti hluti bæjarbúa hefur atvinnu af sjávarútvegi. Bæði við vinnslu og smábátaveiðar. Indriði flutti til Bakkafjarðar fyrir tæpum 40 árum en kona hans Unnur Gunnlaugsdóttir er alin upp í sveit nærri bænum. „Ég myndi lýsa þessu sem trillusamfélagi. Svona hefðbundið lítið sjávarpláss þar sem allir þekkja alla,“ segir Indriði.

Þrautseigja einkennir fólkið

Hann segir margt hafa breyst í samfélaginu. Sérstaklega þar sem sauðfjárbúskapur hefur að mestu lagst af í nærliggjandi sveitum. Þegar mest lét árið 1995 voru 160 íbúar skráðir í sveitarfélaginu.

Freydís starfar í grunnskólanum sem er næst stærsti atvinnuveitandinn á staðnum. Hún er uppalinn Bakkfirðingur og hefur búið þar lungann úr ævinni og samfellt frá 25 ára aldri. „Ég myndi segja að þrautseigjan einkenndi okkur. Við höfum farið ofan í dali og svo hefur birt til. Vissulega hefur fólki fækkað og það helgast kannski af því að það eru ekki nægilega mörg atvinnutækifæri fyrir unga fólkið þegar það klárar sitt nám,“ segir Freydís.

Börnin í öruggu umhverfi

Sextán börn eru í grunnskólanum á Bakkafirði. „Þetta er vissulega hátt hlutfall en það hafa oft verið mörg börn í bænum,“ segir Freydís. Hún segir að í takt við þjóðfélagsbreytingar hafi staðurinn tekið stakkaskiptum. „Við þurfum á því að halda að fá ungt fólk hérna til baka. Að búa eitthvað til fyrir fólk sem er búið að mennta sig,“ segir Freydís.

Hún segir bæinn hafa margt upp á að bjóða. „Börnin eru örugg í umhverfinu hérna og geta fylgst með þeim sem eldri eru að vinnu. Svo er þetta mjög rólegt og mikil kyrrð og ekki þetta stress sem er í þéttbýlinu. Svo þarf maður alltað að vega þetta og meta. Spyrja sig hvað það er sem skiptir máli í lífinu. Hér sérðu norðurljós og heyrir fuglana syngja. Slíkt verður ekki metið til fjár,“ segir Freydís.

Indriði Þóroddsson
Indriði Þóroddsson mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert