Bílskúrssala hjá Geðhjálp

Túngata 7, hús Geðhjálpar.
Túngata 7, hús Geðhjálpar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Geðhjálp stendur fyrir opnu húsi í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdeginum og geðheilbrigðisvikunni að Túngötu 7 milli kl. 14 og 17 á laugardag, 12. október. Boðið verður upp á tónlist, veitingar og sölu á úrvali af munum úr húsinu eða eins konar „bílskúrssölu“.  

Til sölu verður m.a. ljós, skrifstofuhúsgögn, heimilistæki, leirtau, gardínur, geisladiskar, jólakort og bækur af ýmsum toga. Ungur tenór, Óskar Andri Bjartmarsson, ætlar að syngja lögin Í fjarlægð og Draumalandið og systurnar Sigga, Beta og Elín Ellenar- og Eyþórsdætur syngja nokkur lög klukkan 15:30. Þá verður uppboð á vel völdum munum kl. 16:00, segir í tilkynningu.

Húsið Túngötu 7 byggði Gísli J. Johnsen (1881-1965), kaup-, ræðis- og útgerðarmaður ásamt eiginkonu sinni Önnu E. Ó. Johnsen (1898-1988) á árabilinu 1944 til 1947. Húsið  er teiknað af Einari Erlendssyni, arkitekt. Hann hannaði m.a. hús Hjálpræðishússins og fyrrverandi aðalsafn Borgarbókasafnsins, Esjuberg, við Þingholtsstræti 29a.

Húsið er hið glæsilegasta og var það bæði heimili og aðsetur fyrirtækis Gísla og Önnu. Anna gaf íslenska ríkinu húsið til minningar um eiginmann sinn árið 1969. Ríkið gaf Geðhjálp húsið árið 1998.  

Geðhjálp hefur ákveðið að selja húsið til að létta skuldum af starfseminni og mun félagið flytja starfsemi sína í mun minna húsnæði á næstunni. Því er brýn þörf á að koma þeim hlutum sem ekki er þörf á í nýja húsnæðinu fyrir hjá nýjum eigendum, segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert