Á síðustu 10 árum hefur Samkeppniseftirlitið lagt á um 8 milljarða í stjórnvaldssektir. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að varnaðaráhrifin af þessu séu mikil. Varnaðaráhrif Fjármálaeftirlitsins séu ekki nægilega mikil. Þar vanti tennurnar.
Þetta sagði Páll Gunnar á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag.
„Ég fer úr Fjármálaeftirlitinu yfir í Samkeppniseftirlitið sem er allt annars konar eftirlit. Það er eitt sem Samkeppniseftirlitið hefur algera yfirburði í skipulagslega séð, en það hefur tækifæri til að koma beint framan að hlutunum. Það segir frá öllu sem það gerir. Það sektar fyrirtæki um háar sektir. Ég hygg að núvirtar sektir síðasta áratuginn hjá Samkeppniseftirlitinu séu komnar yfir 8 milljarðar króna. Varnaðaráhrifin af þessu eru þess vegna mikil. Varnaðaráhrifin af starfi Fjármálaeftirlitsins, og það er ekki bundið við íslenska Fjármálaeftirlitið, eru alls ekki nægilega mikil,“ sagði Páll Gunnar. „Eftirlitið brást vegna þess að það vantaði tennur.“
Páll Gunnar sagði að Fjármálaeftirlitið væri í þeirri stöðu að þurfa að halda leynd um sín störf. Hann sagðist hafa lagt til á ársfundi FME árið 2004 að stofnunin fengi lagaheimild til að segja frá því sem væri að og benda á þá sem væru ekki að standa sig. „Menn komust ítrekað upp með að haga sér illa vegna þess að Fjármálaeftirlitið hafði ekki möguleika á að koma því almennilega frá sér.“
Páll Gunnar hætti sem forstjóri FME á miðju ári 2005 þegar hann varð forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
„Ég var í þeirri bölvuðu stöðu að Fjármálaeftirlitið gat ekki tjáð sig opinberlega um allar hætturnar sem snéru að einstökum fyrirtækjum út af þagnaskyldu sem gildir í starfi eftirlitsins og gerir því oft erfitt fyrir og dregur úr varnaðaráhrifum. Ég hef oft verið hugsi yfir því síðan,“ sagði Páll Gunnar.
Páll Gunnar sagðist hafa notað ársfund FME til að tjá sig um það sem hann taldi að þyrfti að bæta. „3. nóvember 2004 héldum við ársfund og ræddum þar um áhyggjur okkar af stórum áhættuskuldbindingum í bankakerfinu. Við vöktum athygli á því þarna, að sennilega væri fjórðungur af eigið fé bankakerfisins undir einni samtengdri áhættu. Við höfðum alveg sérstakar áhyggjur af virkum eignarhlutum í stóru bönkunum og nýjum eigendum sem þar voru að koma inn. Við kölluðum eftir því í þessari ræðu að stjórnvöld og löggjafinn kæmu til liðs við okkur í því að styrkja umgjörðina. Það var tvennt sem ég nefndi þar, annars vegar að þessir nýju eigendur yrðu þvingaðir til að styrkja tryggingakerfið, borga meira inn í tryggingainnstæðusjóðinn og síðan að umgjörðin um virka eigendur yrði styrkt í því skyni að herða eftirlit með þeim. Það var lítið hlustað á þetta, enda lítil stemming fyrir því á þessum tíma.“
„Ég er hugsi yfir hugarfarinu í þjóðfélaginu. Þegar ég rifja upp þessa tíma fyrir hrun þá blasir alveg við mér að það var ekki hlustað á mig sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Ég vildi t.d. láta styrkja tryggingakerfi innistæðueigenda. Ég held að það hafi aldrei verið tekið upp í sölum Alþingis. Sá eini sem tók það upp var leiðarahöfundur Morgunblaðsins.
Ég er hugsi yfir þessu því að þetta endurspeglar ákveðið hugarfar sem gengur út á að stjórnvöld telji sér borgið með því að setja á stofn eftirlitsbatterí, hvort sem það heiti Fjármálaeftirlit eða Samkeppniseftirlit og þurfi svo ekki að hafa áhyggjur af því meira og geti alltaf vísað á það, óháð öllum fjárveitingum. Þetta virkar ekki þannig. Löggjafinn þarf að vera vakandi á hverjum tíma.
Ég nefni þetta núna vegna þess að núna er verið að tala niður til eftirlitsstofnana á dálítið svipaðan hátt og gert var 2004. Það er talað um „eftirlitsiðnað“ sem sé að sliga atvinnulífið en það er ekkert talað um hvaða hagsmuni eftirlitin eru að vernda,“ sagði Páll Gunnar.