Utanríkisráðherra skýrði frá því á fundi með Kaj Leo Johannesen, lögmanni Færeyinga, í dag að ný ríkisstjórn hefði markað mjög skýra stefnu og vilji væri til að efla enn frekar hið miklvæga samstarf sem væri við Færeyjar. Samskiptin væru þegar náin á ýmsum sviðum en stefnt væri að að auka þau enn.
„Engin þjóð stendur Íslendingum nær en Færeyingar,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á fundinum sem var um framkvæmd Hoyvíkur fríverslunarsamningsins. Markmið samningsins, sem tók gildi 1. nóvember 2006, er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja.
Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir viðskipti ríkjanna almennt og hvernig megi nýta betur þá möguleika sem samningurinn býður upp og greiða þannig fyrir frekari viðskiptum. Þeir ræddu í því samhengi hvernig efla mætti samstarf Íslands og Færeyja um sameiginlega hagsmuni í sjávarútvegi og norðurslóðir og fögnuðu tillögu Vestnorræna ráðsins um að styrkja samstarf Færeyja, Íslands og Grænlands um málefni norðurslóða á þeim sviðum sem hagsmunir landanna fara saman.
Árið 2011 voru fluttar út vörur frá Íslandi til Færeyja fyrir 3,8 milljarða króna og innflutningurinn það ár frá Færeyjum nam tæpum 1.4 milljörðum. Þegar þessar tölur eru skoðaðar fyrir 2012 sést að innflutningurinn hefur dregist lítillega saman og er 1.3 milljarðar en útflutningurinn aukist í 6.8 milljarða. Meginskýringarnar eru aukning í útflutningi á uppsjávarfiski og ýmsum iðnaðarvörum, auk þess sem útflutningur jókst á álafurðum og fiskinetum, línum og köðlum.