Heimilt verði að hafa þjóðfánann uppi allan sólarhringinn ef hann er flóðlýstur. Þetta er tillaga tíu þingmanna Framsóknarflokksins, sem lagt hafa fram frumvarp um breytingu á fánalögunum á Alþingi.
Þingmennirnir leggja til að reglur um fánatímann verði rýmkaðar frá því sem nú er á þann veg að fáni megi vera uppi allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. ágúst ár hvert, „eða á öðrum tímum ef hann er flóðlýstur,“ eins og segir í frumvarpinu.
Gildandi reglur kveða á um að fána megi ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skuli hann ekki vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis. Flutningsmenn segja í greinargerð að tilgangurinn sé að auka almenna notkun þjóðfánans, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.