„Miklu fleiri settu pening í krukkuna en ég hafði nokkurn tíma gert mér í hugarlund,“ segir Ingi Þór Jakobsson, rekstrarstjóri Hálendismiðstöðvarinnar á Hrauneyjum.
Eftir að hafa endurbætt salernisaðstöðuna að Hrauneyjum í vor, sem þúsundir ferðamanna notfæra sér, setti Ingi Þór í tilraunaskyni glerkrukku á áberandi stað með merki sem á stóð Heiðarleiki 1 evra eða 150 krónur.
„Ég setti þetta fyrst og fremst upp til að láta reyna á hvort ég fengi fyrir kostnaði við salernispappír og þrif,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag. Ferðafólki sem notfærði sér aðstöðuna var í sjálfsvald sett hvort það setti peninga í krukkuna en viðbrögðin fóru fram úr björtustu vonum.