Aðdáun þjóðarinnar að drepa Megas

Megas, Magnús Þór Jónsson, á Austurvelli.
Megas, Magnús Þór Jónsson, á Austurvelli. Einar Falur Ingólfsson

„Aðdáun þjóðarinnar er stundum að drepa mig og þá sérstaklega tillitsleysi karla með status sem þykjast eiga í mér hvert bein,“ segir Magnús Þór Jónsson, Megas. „Þeir þurfa að mónólóga um mig af mikilli og djúpri vanþekkingu.“ Hann tekur jafnframt fram að unglingar séu mun kurteisari.

Viðtal við Megas birtist í nýju tölublaði tímaritsins Áfram - á besta aldri sem fylgdi Morgunblaðinu í dag.

Óttar Guðmundsson geðlæknir settist niður með Megasi og tók viðtalið. Í lok viðtalsins má svo lesa niðurstöðu geðlæknisins: „[Megas] hefur alltaf ögrað lífsgildum samfélagsins og komist upp með það.“

Óttar segir að Megas sé „eitt merkilegasta fyrirbæri íslenskrar bókmenntasögu“. Hann sé of mikill rokkari til að njóta virðingar sem ljóðskáld og of mikið skáld til að njóta viðurkenningar sem tónskáld.

Sannleikurinn svæsnari en sögurnar

Megas er meðal annars spurður að því hvort þetta sé í fyrsta skipti sem hann tali við geðlækni. „Nei, ég hef hitt þá allmarga og ærið misjafna,“ svarar Megas. „Sumir bulluðu út í eitt en aðrir sögðu eitthvað af viti. Einhverjir gáfu mér þó verkfæri sem nýtast mér stundum í lífinu.“

Víða er komið við sögu í viðtalinu, farið yfir barnæsku Megasar, skólagöngu, upphaf tónlistarferilsins og auðvitað sukkið. Er Megas spurður hvort allar þær sögur sem farið hafa af honum séu sannar. „Nei, mikið af þessum sögum var uppspuni enda var sannleikurinn venjulega öllu svæsnari en sögurnar.“

Megas rifjar þá upp hvernig hann sukkaði í skólanum forðum daga. „Ég var undir húsaga heima fyrir og kom frá bindindisheimili svo að ég mátti ekki drekka á kvöldin eða láta einhvern vita að ég drykki. Ég tók því á það ráð að fara í apótekið upp úr klukkan hálfátta og kaupa mér mentólspritt til að drekka í skólanum.“

Vefsvæði Áfram - á besta aldri

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka