Móta þarf raunhæfa stefnu um hvar íslenska heilbrigðiskerfið á að standa í samanburði við aðrar þjóðir og tryggja fjármagn í samræmi við þá stefnu. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Læknafélags Íslands.
Aðalfundurinn lýsti yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp næsta árs og að við gerð þess hafi verið hunsuð eindregin ósk þjóðarinnar um að setja heilbrigðismálin í forgang. "Aðalfundurinn lýsir skýlausri ábyrgð á vanda heilbrigðiskerfisins á hendur stjórnvöldum og skorar á yfirvöld að bregðast strax við því ófremdarástandi sem upp er komið í heilbrigðiskerfinu."
Einnig segir að stjórnvöld verði að móta stefnu sína um heilbrigðiskerfið fyrir lok ársins og framkvæma hana á næstu þremur árum.
Þá segir að læknar og félög lækna hafi ítrekað bent á lausnir á þeim brotalömum sem blasi við í heilbrigðiskerfinu. "Í samvinnu við lækna, aðrar heilbrigðisstéttir og hagsmunahópa þarf að forgangsraða þeim lausnum sem valdar eru. Setja þarf skýr tímamörk hvenær á að hrinda þeim í framkvæmd innan áranna þriggja.