Kumi Naidoo, alþjóðaframkvæmdastjóri Greenpeace, er staddur á ráðstefnu Arctic Circle, sem staðið hefur yfir í Hörpu um helgina. Ráðstefnan er haldin á vegum samtakanna Arctic Circle.
Markmið samtakanna er að leiða saman ólíka einstaklinga og samtök til að taka þátt í umræðunni um Norðurskautið og auka áherslu alþjóðasamfélagsins á málefni þess. Ráðstefnan er einstök í heiminum, því hvergi annarsstaðar koma saman aðilar frá öllum heimshlutum til að ræða málefni Norðurskautsins.
Kumi Naidoo segir umræðuna um að við ógnum plánetunni með loftslagsbreytingum í raun ekki rétta. „Jörðin sér um sig sjálf. Ef við mengum hana svo mikið að við getum ekki lifað á henni lengur þá munu höfin og skógarnir hreinsa hana aftur á löngum tíma. Við erum að berjast fyrir því að mannkynið geti búið á henni áfram.“
„Þetta er stærsta ráðstefnan sinnar tegundar sem setur Norðurskautið í forgrunn og því ber að fagna,“ segir hann. „Forseti Íslands á mikið lof skilið fyrir sinn þátt í þessu. Staðreyndin er sú að flestir í heiminum búa hvergi nærri Norðurskautinu. Þegar ég mótmæli á Grænlandi árið 2011 þá hélt ég á borða þegar við vorum flutt burt á báti. Á honum stóð „Bjargið Norðurskautinu.“ Dóttir mín benti mér á að ég hefði frekar átt að hafa skrifað „Bjargið Jólasveininum,“ því flestir vita varla hvar Norðurskautið er.“
„Einhver, einhversstaðar gerði stór mistök,“ sagði Kumi Naidoo og skellti upp úr þegar hann var spurður út í hvernig það hefði atvikast að hann varð alþjóðaframkvæmdastjóri Greenpeace. Kumi Naidoo, sem fæddist í Suður Afríku árið 1965, hefur lengi tekið þátt í stjórnmálabaráttu.
„Ég tók fyrst þátt í að frelsa landið mitt þegar ég var fjórtán ára gamall,“ segir hann, og á þar við baráttuna í Suður Afríku gegn aðskilnaðarstefnunni. „Það var ekki óvenjulegt á þeim tíma að fara út í þetta á þessum aldri. Stökkpallurinn inn í baráttuna var ójafnrétti í skólakerfinu. Stúdentar gerðu uppreisn á landsvísu þegar ég var fjórtán ára og ég var valinn sem einn af leiðtogunum í minni heimaborg.“
Í kjölfarið af því var hann rekinn úr skóla, en kenndi sjálfum sér eftir það. Hann lauk lögfræðinámi en fór í útlegð 22 ára þar sem neyðarástandi var lýst yfir í landinu, en margir af vinum hans og samherjum segir hann að hafi ýmist verið drepnir eða fangelsaðir af stjórnvöldum.
„Ég var heppinn, því ég hafði fengið styrk til að komast inn í Oxford-háskóla. Þaðan lauk ég doktorsnámi og hélt áfram að berjast fyrir frelsi landsins míns þaðan. Mánuði eftir að Nelson Mandela var sleppt úr fangelsi fór ég aftur heim til Suður Afríku til að styðja við hreyfingu hans.“
Það segir hann að hafi ekki átt við sig, því frelsisbaráttu segir hann vera eitt en flokkapólitík allt annað. „Ég sá hins vegar að Suður Afríka þyrfti á öflugu lýðræði að halda. Meðan aðskilnaðarstefnan var við lýði var unnið eftir þeim lögmálum að svart fólk ætti aldrei að koma inn fyrir þröskuld skólabyggingar, og aðeins vera kennt að sækja vatn og bera timbur.“ Hann vann því um hríð að því að kenna fullorðnu fólki að lesa og skrifa.
„Þegar Greenpeace hringdu árið 2009 var ég í hungurverkfalli til að þrýsta á á yfirvöld í Suður Afríku vegna mannréttindabrota stjórnar Roberts Mugabe í Simbabve. Þetta var 19. dagurinn þar sem ég hafði ekki neitt neins nema vatns, þannig að þegar ég fékk símtalið sagði ég að tímasetningin væri alveg skelfileg.“
„Dóttir mín, sem býr í Bretlandi hjá móður sinni var 14 ára á þessum tíma og sagði við mig að hún myndi ekki tala við mig aftur nema ég hitti fólkið frá Greenpeace og íhugaði alvarlega að taka að mér starfið,“ segir Kumi Naidoo.
Naidoo segist kominn á ráðstefnuna til að ræða við fulltrúa Rússlands á ráðstefnunni vegna þess að rússnesk stjórnvöld handtóku fyrir um mánuði 30 meðlimi Greenpeace sem reyndu að klifra upp á rússneskan olíuborpall í Norður Íshafi. Skip þeirra var dregið til Múrmansk og er mál þeirra fyrir þarlendum dómstólum.
„Ég ætla að sækja málstofu þar sem sendifulltrúi Pútíns verður í pallborði, og ég ætla mér að kalla eftir að gefin verði út ályktun þar sem krafist verður þess að fólkið verði látið laust,“ en hann segir að þau hafi verið vistuð í fjórum mismunandi fangelsum við slæmar aðstæður.
„Við höfum ekki getað talað við þau, en vitum að þau eru núna komin í eitt fangelsi. Hvert þeirra er með sinn eigin lögmann, þar sem ekki er réttað yfir þeim í sameiningu.“ Hann segir ekkert þeirra sjá eftir því sem þau gerðu og að þau telji sig hafa unnið í þágu komandi kynslóða.
Hann segir marga hafa spurt sig þegar hann tók við stöðunni hjá Greenpeace hvers vegna hann, sem hefði barist fyrir mannréttindum og gegn fátækt hefði nú ákveðið að snúa baki við þeim málefnum til að taka höndum saman við Greenpeace. „Baráttan við fátækt og baráttan við loftslagsbreytingar eru í raun sitthvor hliðin á sama peningnum, því hinir fátæku þjást mest þegar náttúruhamfarir ganga yfir,“ segir Naidoo.
Hann segir nærri því hálfa milljón manna láta lífið á hverju ári vegna loftslagsbreytinga og vísar í skýrslu sem Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna (SÞ) lét gera. Í skýrslunni, sem samin var árið 2009, segir að árlega farist 300.000 af þessum sökum, en að sú tala gæti að óbreyttu náð hálfri milljón árið 2030.
„Fólkið sem lætur lífið af þessum sökum er það fólk sem á hvað minnsta sök á loftslagsbreytingunum. Það hefur ekki aðgang að rafmangi, eins og til dæmis í Darfur, þar sem skortur á landi og vatni er helsti drifkrafturinn að baki átökunum. Það í sameiningu veldur svo matarskorti,“ og segir Ban Ki-moon, aðalritara SÞ hafa sagt að Chad-vatn hafa minnkað svo mikið að það sé nú á stærð við tjörn.
Hann segir mannkynið glíma við þann vanda að stjórnmálamenn hugsi í litlum kössum. „Stjórnmálamenn virðast ekki geta hugsað um hlutina í samhengi. Þeir hólfa hlutina upp í litla kassa eins og atvinnumál, umhverfismál, loftslagsbreytingar, öryggismál og þar fram eftir götunum. CIA og hermálayfirvöld í Pentagon hafi hins vegar bent á árið 2003 að loftslagsbreytingar myndu á komandi áratug verða helsta ógn við öryggi í heiminum. Vilji fólk því takast á við öryggismál þarf að takast á við loftslagsmál og fjárfesta í hreinni og endurnýjanlegri orku.“
Hann segir Íslendinga geta lagt heiminum til þekkingu sína á jarðvarma, vatnsorku og öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum. „Aðrar þjóðir hafa kannski ekki sama aðgang og þið að jarðvarmaorku, en þið hafið tæknina og þekkinguna. Þetta er nauðsynlegt, því ef veið eigum að haga orkunotkun okkar í samræmi við það sem vísindamenn segja að við þurfum að gera, þá þurfum við orkubyltingu af sömu stærðargráðu og iðnbyltingin var.“
Kumi Naidoo bendir á að til að sigrast á þessu vandamáli þurfi heimsbyggðin að vinna saman. Í dag séu stjórnmálin föst í viðjum sérhagsmuna, og nefnir Bandaríkin sem dæmi þar sem þrýstihópar eða „lobbýista“ sem séu fjármagnaðir af orkuframleiðendum berjist gegn breytingum sem myndu draga úr útblæstri Bandaríkjanna á gróðurhúsalofttegundum.
„Þar að auki er von á gríðarlegum hagnaði til skamms tíma við til að mynda olíuvinnslu. Það er mikill langtímagróði í endurnýjanlegum orkugjöfum. Hins vegar er um að ræða allt annað viðskiptamódel í þeim heimi - það er til dæmist ekki hægt að fá einkarétt á að nýta sólina,“ segir hann.