Veðurstofa Íslands hefur farið yfir jarðskjálftann sem reið yfir suðvesturhorn landsins um klukkan hálf átta í morgun. Skjálftinn mældist 4,8 stig og upptök hans voru 3,0 km austur af Reykjanestá. Vel fannst fyrir skjálftanum í Reykjanesbæ, á höfuðborgarsvæðinu og allt út á Akranes.
Jarðskjálftahrina hófst við Reykjanestá snemma í nótt en skjálftarnir sem mælst hafa voru flestir á bilinu 1-2,4 stig. Þeir eru á 4,8-6 kílómetra dýpi og flestir eiga upptök sín 2,7-3,6 km ANA af Reykjanestá. Á sjötta tug skjálfta hafa mælst frá miðnætti og ekkert lát virðist vera á jarðskjálftahrinunni.