Yoko Ono, nýbakaður heiðursborgari Reykjavíkur, hefur sjaldan haft fleiri járn í eldinum. Orðin áttræð. Yfirlitssýning á myndlist hennar er á ferð og flugi um heiminn, fyrr á árinu kom út ný bók, Acorn, og í síðasta mánuði ný plata, Take Me to the Land of Hell. Þá á hún vinsælasta danslagið í Bandaríkjunum um þessar mundir, Walking on Thin Ice.
Spurð hvort henni finnist hún alltaf jafn skapandi svarar Yoko: „Heldur betur. Ástæðan er sú að ég er stöðugt að leita að nýjum áskorunum. Gera eitthvað nýtt. Endurtekningin er böl, hún er bara gamall kækur. Aldur er líka afstæður. Það er mjög auðvelt að hugsa: Jæja, hún er orðin áttræð og hlýtur að fara að setjast í helgan stein. Þannig hugsa ég ekki. Ég lifi fyrir daginn í dag og reyni að koma eins miklu í verk og ég mögulega get. Og hafa áhrif á umhverfi mitt.“
– Talandi um aldur. Eiginmaðurinn þinn væri á áttræðisaldri í dag hefði hann lifað. Veltirðu því einhvern tíma fyrir þér hvernig sá aldur hefði fariðhonum?
„Nei, það geri ég ekki. Þvert á móti ráðlegg ég fólki, ekki síst konum, að velta sér ekki upp úr aldri. Þær koma stundum til mín, þessar elskur, hoknar af áhyggjum. „Yoko, ég er að verða fertug. Hvað á ég til bragðs að taka?“ Þá get ég ekki annað en hlegið. Fertug? Ertu að grínast? Ég er áttræð! Skilaboðin frá mér eru skýr, hættið að hafa áhyggjur af því að eldast! Mín reynsla er sú að lífið verði betra og betra með aldrinum. Gleymið því samt ekki að þetta er fyrst og síðast undir ykkur sjálfum komið. Það eruð þið sem gerið líf ykkar betra. Gefið ykkur tíma til að rækta eigin garð. Þá kemur hitt af sjálfu sér.“
Nánar er rætt við Yoko Ono í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.