Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hafa talað ákaft fyrir því sem nefnt hefur verið „brauðmolahagfræði“ í umræðum um veiðigjöld. Sagði formaðurinn þetta við óundirbúinn fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
„Á þann veg að það sé gott að lækka fjárhæð veiðigjalda því þá verði meiri peningar eftir hjá útgerðinni til þess að fjárfesta og við öll njótum ávaxtanna af því. Þessi brauðmolahagfræði hefur leitt á undanförnum árum til vaxandi misskiptingar um öll Vesturlönd og það er auðvitað þannig að síðast þegar þessir tveir flokkar voru í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, þá elti Ísland Bandaríkin. Og gekk næstum því jafn langt í aukinni misskiptingu og Bandaríkin á þann veg að það eitt prósent þjóðarinnar sem mest hefur á milli handanna tók til sín fimm prósent af þjóðarauðnum árið 1995 en nær 20 prósent 2008.“
Sagði Árni Páll því vert að minna á það að nú séu komnar fram nýjar hugmyndir á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að skynsamlegt sé að leggja auknar byrðar á ríkasta prósentið. Sagði hann eðlilegt að sá hópur beri ríkari byrðar en hingað til hefur verið.
„Í þessari skýrslu er sérstaklega tekið fram að Ísland hafi lagt á auðlegðarskatt á undanförnum árum. Ég vil því sérstaklega beina þeirri fyrirspurn til ráðherrans: Skapar þessi staða ekki ákveðna viðspyrnu fyrir Framsóknarflokkinn eða ríkisstjórnina í heild? Er ekki ástæða til þess að sækja meira til þeirra sem mest hafa?“
Við upphaf andsvars síns sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra mikilvægt að ræða þessa þætti og benti á að hann sé nú snúinn aftur frá Vestfjörðum eftir að hafa sótt þar fyrirtæki heim.
„Ég hitti þar fyrirtæki sem er burðarfyrirtæki í litlu sjávarplássi. Skilaboðin þar voru þau: Hefðum við ekki brugðist við með þeim hætti sem við brugðumst við í sumar og löguðum þær byrðar sem voru lagðar á minni og meðal fyrirtæki þá væri það fyrirtæki gjaldþrota,“ sagði Sigurður Ingi og benti á að á ferðum sínum um landið hafi hann víða heyrt sömu sögu.
Sagði ráðherrann mikilvægt að horfa til þess hversu ólíkur og fjölbreyttur sjávarútvegurinn er.
„Það sem við gerðum í sumar hefur skilað um það bil sömu veiðigjöldum til ríkissjóðs og fyrrverandi ríkisstjórn hafði ætlað sér.“