„Það er í raun aðili sem kemur þessu í sölu en ég fæ þetta samt ekki beint frá honum,“ segir Sigurður Helgi Pálmason, eigandi Safnaramiðstöðvarinnar á Hverfisgötu, en verslun hans fékk í dag heldur fágætan grip upp í hendurnar - silfurmedalíu sem afhent var íslenska karlalandsliðinu í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.
Verðlaunin hafa þegar vakið mikla athygli enda ekki á hverjum degi sem safnarabúð hér á landi setur slíkan grip á sölu.
„Þetta er náttúrulega bara yndislegur hlutur. En svona hlutir fara á sölu enda hefur fólk sínar ástæður fyrir því að selja þá,“ segir Sigurður Helgi og bendir á að medalían sé hluti af einni af stærstu stundum íslenskrar íþróttasögu. „Ég stóð organdi þegar strákarnir fengu silfrið og þegar ég fékk þennan hlut inn í búðina mína orgaði ég alveg jafn mikið því maður tengir svo sterkt við þessa stund.“
Hann segist ekki vilja gefa upp hver það er sem sé að selja Ólympíuverðlaun sín né heldur vill Sigurður Helgi gefa upp kaupverð. Til þess að komast að verðinu þurfa áhugasamir að leggja leið sína í verslun hans.
Spurður hvort hann eigi von á auðveldri sölu segir Sigurður Helgi: „Það er náttúrulega ekki hlaupið að því að selja svona dýra hluti. Með svona safnaradót getur maður í raun aldrei verið viss. Maður er alltaf að bíða eftir rétta aðilanum.“
Hægt er að sjá Ólympíuverðlaunin auglýst til sölu á Facebook-síðu Safnaramiðstöðvarinnar.