Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði á Alþingi í dag hvort ríkisstjórnin hefði frestað nóvembermánuði.
Helgi sagði í umræðum um störf þingsins í dag, að tugþúsundir Íslendinga biðu þess í ofvæni, að fram kæmu tillögur um úrlausn á skuldavandanum, sem Framsóknarflokkurinn hefði boðað að lægju fyrir í nóvember.
„Þá ber svo við að formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir því yfir á Bloomberg, að ólíklegt sé að tillögurnar komi á þessu ári og hann vonist til þess að nefndirnar, sem áttu að klára í nóvember klári fyrir áramót. (...) Þetta er ákaflega alvarlegt að stjórnarflokkarnir séu ekki samhljóma um það hvenær tillagna sé að vænta og hvort þeirra sé að vænta. Við erum nýlega búin að heyra þennan sama Bjarna Benediktsson lýsa því yfir, að þetta séu einhverjar vangaveltur en ekki ótvíræð ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráðast í lækknun skilda heimilanna. Og það er ábyrgðarhluti að tala um dagsetningar tvist og bast eins og formaður Framsóknarflokksins annarsvegar og formaður Sjálfstæðisflokksins hins vegar eru farnir að gera í málinu,“ sagði Helgi.