Ólympíumedalían sem var auglýst til sölu hjá Safnaramiðstöðinni hefur verið tekin úr sölu fyrir tilstuðlan Handknattleikssambands Íslands.
„Það er búið að leysa málið á þann hátt að það hefur náðst samkomulag um það að medalían hefur verið tekin úr sölu,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.
Hann segir mögulegt að HSÍ fái medalíuna til umráða en það sé ófrágengið. „Ástæðan fyrir því að við göngum inn í þetta er þetta sögulega gildi sem þetta hefur fyrir þjóðina og sögu handboltans og þess vegna viljum við stíga inn í þetta á þessu stigi,“ segir Guðmundur.
Safnaramiðstöðin hafði medalíuna, sem afhent var leikmanni íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Ólympíuleikunum í Pekíng árið 2008, í umboðssölu áður en hætt var við söluna og var uppsett verð tvær milljónir króna.